Fara í efni
Þór

KA í undanúrslitin en Þór tapaði fyrir Fjölni

Karlalið KA í blaki er komið í undanúrslit Íslandsmótsins í blaki eftir 3:0 sigur á HK á heimavelli í kvöld. Þetta var seinni leikur liðanna. KA vann fyrri leikinn 3:1 í Kópavogi. Ótrúlegt en satt þá enduðu allar þrjár hrinurnar eins í kvöld – 25:19.

KA mætir Aftureldingu í undanúrslitum. Fyrsti leikur liðanna verður í Mosfellsbæ á mánudaginn og KA var Aftureldingu svo í heimsókn næsta fimmtudag. Vinna þarf tvo leiki til að komast í lokaúrslitin.

Karlalið Þórs í handbolta var líka í eldlínunni í kvöld. Þórsarar mættu þá liði Fjölnis í undanúrslitum Grill66 deildarinnar í handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins. Fjölnismenn, sem voru á heimavelli, sigruðu 30:22 eftir að hafa verið einu marki yfir, 14:13, að loknum fyrri hálfleik. Liðin mætast aftur í Íþróttahöllinni á Akureyri á mánudagskvöldið en tvo sigra þarf til að komast í úrslitarimmu, nær örugglega við Víkinga, um sæti í efstu deild.

Á heimasíðu Þórs segir í kvöld að Arnór Þorri Þorsteinsson, markakóngur Grill66 deildarinnar í vetur, hafi skorað mest fyrir Þór eins og oft áður – sjö mörk. Þar segir einnig að Sævar Þór Stefánsson, kornungur leikmaður sem skrifaði í vikunni undir sinn fyrsta samning við handknattleiksdeild Þórs, hafi gert þrjú mörk.