Fara í efni
Þór

Júlíus Orri leikur og lærir í New Jersey

Júlíus Orri Ágústsson verður í bandarísku háskóladeildinni næsta vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Júlíus Orri Ágústsson, körfuboltamaður í Þór, er á leið til náms í bandaríska Caldwell háskólanum í New Jersey og mun leika með körfuboltaliði skólans. Júlíus, sem er 19 ára bakvörður, staðfestir við heimasíðu Þórs að honum hafi verið boðinn fullur skólastyrkur. Caldwell háskóli er í 2. deild bandarísku háskólaíþróttasamtakanna, NCAA.

Þrátt fyrir ungan aldur á Júlíus að baki 82 leiki með meistaraflokki Þórs, enda steig hann fyrstu skrefin þar aðeins 14 ára! Júlíus hefur verið lykilmaður og fyrirliði liðsins síðustu misseri, var reyndar frá lungann úr nýliðinni leiktíð vegna meiðsla en sneri aftur inn á völlinn undir lokin.

Júlíus hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands – alls 29 leiki, að því er segir á heimasíðu Þórs – og þykir einn allra efnilegasti leikmaður landsins.