Fara í efni
Þór

Jón Stefán og Sveinn Elías aðstoða Orra

Jón Stefán Jónsson og Sveinn Elías Jónsson, aðstoðarþjálfarar hjá Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jón Stefán Jónsson og Sveinn Elías Jónsson voru í dag ráðnir aðstoðarþjálfarar meistaraflokks karla í fótbolta hjá Þór. Þeir verða Orra Frey Hjaltalín til halds og trausts, en hann var ráðinn þjálfari liðsins á dögunum eins og áður hefur komið fram.

Jón Stefán - alltaf kallaður Jónsi - hefur lengi þjálfað, fyrst yngri flokka hjá Þór, starfaði einnig hjá Haukum í Hafnarfirði og Val í Reykjavík og var nú síðast við stjórnvölinn hjá kvennaliði Tindastóls, sem komst í fyrsta skipti upp í efstu deild haust. Jónsi ákvað engu að síður að hætta, sagði stelpurnar eiga skilið þjálfara sem byggi á Sauðárkróki en það væri honum ómögulegt vegna starfs sem íþróttafulltrúi hjá Þór.

Sveinn Elías hefur árum saman verið einn lykilmanna Þórsliðsins í fótbolta og fyrirliði síðustu árin. Hann lagði skóna á hilluna í haust en tekur strax slaginn í þjálfun. Hann kveðst spenntur fyrir nýju hlutverki en tjáði blaðamanni jafnframt að hann mætti hafa það eftir öðru hné leikmannsins fyrrverandi, og ökkla, að þau væru mjög sátt við þá ákvörðun að keppnisskórnir væru komnir upp á hillu!