Ísland í 5. sæti - Rakel Sara í liði mótsins
Rakel Sara Elvarsdóttir, hornamaðurinn stórefnilegi í Íslandsmeistaraliði KA/Þórs í handbolta, var í dag valin í úrvalslið mótsins þegar B-deild Evrópumóts 19 ára og yngri lauk í Norður-Makedóníu. Ísland lenti í fimmta sæti eftir að hafa unnið lið heimamanna í síðasta leiknum, úrslitaleik um fimmta sætið.
Ísland var með forystu allan tímann í dag, nema hvað Norður-Makedónía náði að jafna á síðustu sekúndunum. Ekki var framlengt heldur strax gripið til vítakeppni, þar sem Íslendingar skoruðu úr fjórum en gestgjafarnir aðeins úr tveimur. Rakel Sara tók síðasta víti Íslands og gulltryggði sigurinn. Hún fór á kostum í leiknum sjálfum eins og svo oft áður; varð markahæst með níu mörk og var valin maður leiksins. Þá var hún ein þeirra sjö sem valdar voru í úrvalslið mótsins, sem tilkynnt var í dag.
Handboltavefur Íslands, handbolti.is, fjallar ítarlega um mótið. Hér er grein um leikinn og fleiri greinar og myndasyrpa eru á vefnum.