Fara í efni
Þór

Hulda Björg kölluð inn í U23 landsliðshópinn

Hulda Björg Hannesdóttir fagnar marki í sumar ásamt liðsfélögunum í Þór/KA. Frá vinstri: Una Móeiður Hlynsdóttir, Hulda Björg, Amalía Árnadóttir, Tahnai Annis og Dominique Jaylin Randle. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Hulda Björg Hannesdóttir, leikmaður Þórs/KA í knattspyrnu, var í gær kölluð inn í landslið 23 ára og yngri (U23), sem mætir Marokkó í tveimur vináttuleikjum Rabat, höfuðborg landsins, á næstu dögum.
 
Lið Þórs/KA var á heimleið í gær eftir frækinn 2:0 sigur á Þrótti í Laugardalnum þegar Hulda Björg fékk símtal frá landsliðsþjálfaranum sem færði henni þessa gleðifrétt. Hún heldur því suður á ný í dag til æfinga. Fyrir eru í hópnum tveir leikmenn Þórs/KA, Karen María Sigurgeirsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir.
 
Hulda Björg, sem varð 23 ára fyrr í þessum mánuði, á að baki 28 landsleiki, fyrir U16, U17 og U19 liðin. Hún hefur verið fastamaður í liði Þórs/KA síðan sumarið 2017 þegar hún var aðeins 16 ára. Hulda hefur tekið þátt í 124 leikjum í efstu deild Íslandsmótsins og alls 176 alvöru leikjum með Þór/KA.