Fara í efni
Þór

Hilda Jana vanhæf í málum tengdum KA

Teikning af breytingum sem standa fyrir dyrum á félagssvæði KA.

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, var vanhæf við afgreiðslu bæjarráðs varðandi uppbyggingu á félagssvæði Knattspyrnufélags Akureyrar en vék ekki sæti. Eiginmaður hennar, Ingvar Már Gíslason, var formaður KA þar í lok síðasta mánaðar.

Forseti bæjarstjórnar segir að Hilda Jana hafi jafnan vakið máls á vanhæfi sínu á fundum bæjarráðs, en aðrir bæjarráðsmenn á þeim tíma ekki talið að um vanhæfi væri að ræða.

Það var lögmaður sem Akureyrarbær leitaði til sem komst að þeirri niðurstöðu fyrir skömmu að Hilda Jana hafi verið vanhæf við afgreiðslu bæjarráðs.

Þetta kemur fram í nýlegum pósti forseta bæjarstjórnar, Höllu Bjarkar Reynisdóttur, oddvita L-listans, til Reimars Helgasonar, framkvæmdastjóra íþróttafélagsins Þórs, og allra bæjarfulltrúa, í kjölfar erindis Reimars til bæjarins. Reimar segist raunar, í samtali við Akureyri.net, ekki hafa spurst fyrir um meint vanhæfi Hildu Jönu í bæjarráði við umfjöllun um málefni KA heldur um misræmi varðandi vanhæfi í frístundaráði annars vegar og hins vegar fræðslu- og lýðheilsuráði, sem varð til um áramót með sameiningu frístundaráðs og fræðsluráðs. Halla Björk svarar þeirri fyrirspurn í póstinum.

Kemur ekki fyrir aftur

„Við fengum álit lögmanns í þessari viku, þar sem fram kemur að mistök voru gerð við afgreiðslu á máli bæjarráðs er varðaði uppbyggingu á félagssvæði Knattspyrnufélags Akureyrar. Ljóst þykir að fulltrúi í bæjarráði var, sem maki fyrirsvarsmanns málsins vanhæfur við afgreiðslu þess og hefði átt að víkja af fundi,“ segir í pósti Höllu Bjarkar.

„Við biðjumst afsökunar á mistökunum og munum koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Því skal haldið til haga að bæjarfulltrúinn vakti máls á vanhæfi sínu og hefur ávallt gert við umfjöllun um félagið (en bæjarráðsmenn töldu á þeim tíma að ekki væri um vanhæfi að ræða). Þá kom umræddur bæjarfulltrúi ekki að undirbúningi málsins við meðferð þess,“ segir Halla Björk.

„Að þessu sögðu telja lögfræðingar ekki ástæðu til að taka málið upp að nýju enda var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og er þar að auki í samræmi við yfirlýsta stefnu bæjaryfirvalda,“ segir í pósti Höllu Bjarkar.

Hilda Jana Gísladóttir, til vinstri, og Anna Hildur Guðmundsdóttir.

Vanhæf – ekki vanhæf

„Hvað varðar setu stjórnarmanna í Fræðslu- og lýðheilsuráði sem hafa/höfðu tengsl við fyrirsvarsmenn umræddra íþróttafélaga þá er ljóst að þeir eru/voru vanhæfir í þeim málum sem tengjast félögunum. Almennt er óheppilegt að stjórnarmenn verði oft vanhæfir í málum sem liggja fyrir fundum og þurfi að víkja. Við því hefur og mun verða brugðist,“ segir Halla Björk.

Mágkona Reimars, Anna Hildur Guðmundsdóttir, varð formaður frístundaráðs haustið 2019 fyrir hönd L-listans, og bæjarlögmaður mat hana vanhæfa við umfjöllun um Þór, vegna tengsla við Reimar. Bæjarlögmaður taldi hana hins vegar ekki vanhæfa í nýju fræðslu- og lýðheilsuráði. Það varð til um áramót með sameiningu frístundaráðs og fræðsluráðs, sem fyrr segir.

Hilda Jana er varaformaður hins nýja, sameinaða ráðs, og var heldur ekki vanhæf að mati bæjarlögmanns. Lögmaðurinn sem Akureyrarbær leitaði til á dögunum er á öndverðum meiði.

Ekki lengur vanhæf

Anna Hildur varð formaður frístundaráðs haustið 2019. „Mér var bent á að ég væri sennilega vanhæf þegar fjallað væri um málefni Þórs. Mér þótti það skrýtið, taldi að mágkona gæti varla talist mjög tengd viðkomandi að þessu leyti. En ég spurðist fyrir um þetta hjá bæjarlögmanni, fékk þær upplýsingar að ég væri vanhæf og gerði engar athugasemdir við það. Vék alltaf af fundi þegar ákvarðanir voru teknar um Þór – þangað til ég var ekki lengur talin vanhæf!“ segir hún við Akureyri.net og vísar til breytingarinnar sem varð um áramót.

„Í ljósi þess að ég var vanhæf í frístundaráði finnst mér skrýtið að ég skuli ekki talin vanhæf í nýja ráðinu varðandi málefni Þórs, en hef reyndar ekki leitað skýringa á því,“ segir Anna Hildur.

Um síðustu mánaðamót hætti Anna Hildur sem aðalmaður í fræðslu- og lýðheilsuráði og er varamaður. Eiginmaður Hildu Jönu er hættur sem formaður KA, sem fyrr segir, og hún telst því ekki lengur vanhæf þegar ráðið fjallar um málefni félagsins.

Ingvar hættur sem formaður KA