Fara í efni
Þór

Heimavöllurinn heldur áfram að gefa

Alexander Már Þorláksson fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór vann 2:1 sigur á Selfossi í 7. umferð Lengjudeildar karla á Þórsvelli nú í kvöld. Alexander Már Þorláksson gerði bæði mörk Þórsara áður en Gonzalo Zamorano minnkaði muninn fyrir Selfoss.

Það voru gestirnir frá Selfossi sem byrjuðu leikinn betur og voru nálægt því að komast yfir á 4. mínútu leiksins. Eftir lélega sendingu úr vörn Þórsliðsins fékk Gary Martin boltann einn inn á teignum en skalli hans fór rétt fram hjá markinu.

1:0 – ALEXANDER MÁR KEMUR ÞÓR YFIR

Á 7. mínútu leiksins leit fyrsta markið dagsins ljós, Fannar Daði Malmquist tók þá hornspyrnu. Sendingin frá Fannari var á nærstöngina og þar kom Alexander Már Þorláksson á ferðinni og náði að sneiða boltann í netið. Skallinn var ekki fastur en hann var nákvæmur og það dugði. Heimamenn voru þarna komnir yfir gegn gangi leiksins.

Fyrra mark Alexanders í kvöld. Þarna varð hann fyrsti leikmaður Þórsliðsins til að skora oftar en einu sinni í deildinni í sumar. Fyrir leikinn hafði Þórsliðið skorað sex mörk og þar voru sex leikmenn að verki. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Eftir markið voru Selfyssingar þó áfram sterkari aðilinn og fengu ágætis færi til að jafna leikinn. Gary Martin fékk gott færi á 16. mínútu, aftur eftir mistök í vörn Þórs en þá var Aron Birkir vel á verði í markinu og varði skot hans.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleik unnu Þórsarar sig betur inn í leikinn og fengu fína sénsa úr skyndisóknum. Valdimar Daði Sævarsson komst næst því að bæta við marki fyrir Þór en skalla hans eftir hornspyrnu var bjargað á línu af varnarmanni Selfyssinga. Staðan var 1:0 heimamönnum í vil þegar Guðgeir Einarsson, dómari leiksins flautaði til loka fyrri hálfleiks.

2:0 – ALEXANDER MÁR SKORAR AFTUR MEÐ SKALLA

Það voru aðeins um 30 sekúndur liðnar af seinni hálfleik þegar Þór tvöfaldaði forystu sína. Fannar Daði átti góða sendingu á Elmar Þór á vinstri vængnum, hann keyrði upp að endalínu og átti frábæra sendingu á markteig. Alexander Már var þar óvaldaður og skoraði með föstum skalla.

Markið virtist gefa liðinu sjálfstraust og voru Þórsarar að spila mun betur í fyrri hálfleik og gekk boltinn vel á milli manna. Heimamenn fengu færi til að bæta við en náðu ekki að nýta sér sína sénsa. Fannar Daði var fékk fínt færi á 57. mínútu en skot hans fór af varnarmanni og Stefán Þór náði að verja í horn.

2:1 – SELFYSSINGAR MINNKA MUNINN

Það var rólegt yfir leiknum þegar Selfyssingar minnkuðu muninn á 63. mínútu. Varnarmaður Selfyssinga hreinsaði boltann hátt og langt fram. Gonzalo Zamorano náði þá boltanum fyrir utan teig og kom honum á Guðmund Tyrfingsson sem lyfti boltanum snyrtilega yfir vörnina. Þar var Gonzalo mættur með hlaup inn í teig og renndi boltanum í netið.

Mörk breyta leikjum segir klisjan og það átti svo sannarlega við eftir mark gestanna. Allur vindur virtist vera úr heimamönnum og Selfyssingar tóku öll völd á vellinum.

UMDEILT VÍTI – STÖNGIN BJARGAR HEIMAMÖNNUM

Á 79. mínútu leiksins varð svo umdeilt atvik þegar Guðgeir Einarsson dæmdi víti. Eftir skyndisókn Selfyssinga barst boltinn á Guðmund Tyrfingsson sem komst inn í teiginn. Þar kom Aron út á móti og reyndi að loka á skotið. Guðmundur renndi boltanum í átt að marki en féll við eftir að Aron kom út á móti. Varnarmenn Þórs náðu boltanum en Guðgeir benti á punktinn. Heimamenn voru vægast sagt ósáttir við dóminn. Snertingin virtist ekki mikil og Guðmundur hafði náð skoti áður. En Guðgeir stóð fastur á sínu og vítaspyrnan stóð.

Guðmundur Tyrfingsson fór sjálfur á punktinn en vítaspyrna hans small í utan verðri stönginni við mikinn fögnuð í stúkunni. Aron fór í rangt horn og stöngin bjargaði því heimamönnum.

Eftir þetta héldu Selfyssingar áfram að sækja en heimamenn vörðust eins og þeir gátu. Það fór svo eftir 7 mínútna uppbótartíma að Þórsliðið hélt út gegn sóknarþunga Selfyssinga og lokatölur á Þórsvelli því 2:1.

Eftir leikinn er Þórsliðið í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig. Liðið hefur unnið alla fjóra heimaleiki sína á Þórsvelli og hafa öll stig liðsins komið þar. Næsti leikur Þórsliðsins er útileikur gegn Njarðvík næsta laugardag. En liðið hefur enn ekki náð í stig á útivelli.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.