Fara í efni
Þór

„Heildúkur“ lagður fyrsta sinni á Þórsvöllinn

Dúkurinn lagður á Þórsvöllinn í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í gær var lokið við að leggja dúk yfir knattspyrnuvöll Þórs í Glerárhverfi; svokallaðan heildúk sem Akureyrarbær keypti í vetur í þeim tilgangi að völlurinn verði tilbúinn til notkunar fyrr að vori en ella.

Þórsvöllurinn er eini lifandi grasvöllur bæjarins sem meistaraflokkar félaganna nota til keppni; KA-menn leik á gervigrasi, Greifavellinum nýja á félagssvæðinu við Dalsbraut en heimaleikir karlaliðs Þórs og kvennaliðs Þórs/KA fara fram á heimavelli Þórs. Akureyrarvöllur við Hólabraut hefur verið aflagður sem keppnisvöllur.

Hiti er undir Þórsvellinum sem var orðinn iðjagrænn og fallegur þegar hann var dúklagður. Í morgun var svo föl yfir öllu þannig að dúkurinn kemur strax í góðar þarfir.

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst næsta mánudag, á öðrum degi páska; KA tekur þá á móti KR á Greifavellinum nýja, en ekki verður leikið á Íslandsmóti á Þórsvellinum fyrr en 1. maí, þegar Þór/KA tekur á móti Keflavík. Fyrsti heimaleikur karlaliðs Þórs í Lengjudeildinni verður svo 6. maí þegar Vestri kemur í heimsókn.

Þórsvöllurinn í morgun.