Fara í efni
Þór

Haraldur gæti orðið „íþróttaeldhugi“ ársins

Haraldur Ingólfsson í einu af mörgum hlutverkum sínum; þulur á körfuboltaleik hjá Þór í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Haraldur Ingólfsson er einn þriggja sem koma til greina sem íþróttaeldhugi ársins 2022. Þetta kemur fram á vef Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) í dag. Um er að ræða ný verðlaun sem ÍSÍ stendur að ásamt Lottóinu.

Alls voru 175 manns tilnefndir af íþróttahreyfingunni og almenningi til þessara verðlauna en valnefnd valdi þrjú sem koma til greina. Það eru, auk Haraldar, þau Friðrik Þór Óskarsson sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasambandið og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Björninn, SR og Skautasambandið. Haraldur hefur aðallega unnið fyrir knattspyrnudeild Þórs og kvennaráð Þórs/KA en einnig fyrir bæði handknattleiks- og körfuknattleiksdeildir Þórs.

„Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sína íþróttagrein og félag til áratuga,“ segir á vef ÍSÍ um þremenningana. Þar segir ennfremur: „Valnefnd skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðssyni, hefur komist að niðurstöðu um hvaða þrír sjálfboðaliðar verða heiðraðir samhliða kjöri á Íþróttamanni ársins þann 29. desember næstkomandi og Íþróttaeldahugi ársins 2022 valinn í fyrsta skipti."

Nánar hér á vef ÍSÍ