Fara í efni
Þór

„Hann á afmæli hann Guðni, hann á ...“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með hressum KA-stelpum á Sauðárkróki í gær. Ljósmynd: Þórey Sigurðardóttir

Mikið fjör var á ÓB móti Tindastóls í knattspyrnu á Sauðárkróki um helgina, en þar áttust við stelpur í 6. flokki hvaðanæva af landinu og meðal annars voru bæði KA og Þór með lið á mótinu. Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við keppendur og þeirra fylgdarmenn því napurt var, kalt og hvasst, en þá er bara eitt til ráða - að klæða sig enn betur en venjulega! 

Eitt foreldranna á mótinu er Guðni Th. Jóhannesson forseti lýðveldisins en dóttir hans leikur með liði Álftaness. Svo skemmtilega vill til að Guðni á afmæli í dag, varð 54 ára, og stelpnaskarinn vakti hann í bítið með afmælissöngnum, sem glumdi um húsakynni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

Í gær var haldið ball fyrir stelpurnar. Þar vakti athygli diskótekari í krókódílabúningi, sá kvittur komst á kreik að það væri enginn annar en forsetinn sjálfur sem sæi um tónlistina en það reyndist ekki á rökum reist. Fínt ball samt!

Diskótekarinn - sem reyndist ekki forseti lýðveldisins eins og einhverjir héldu! Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir.

Guðni Th. Jóhannesson og galvaskar KA-stelpur á Sauðárkróki í gær.