Fara í efni
Þór

Handbolti, körfubolti og blak á dagskrá í dag

Garðar Már Jónsson - Paula Del Olmo - Ivan Aurrecoechea Alcolado. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson og Þórir Tryggvason.

Þrír hópar akureyrskra íþróttamanna eiga að vera í eldlínunni í dag, samkvæmt mótaskrá – en það verður svo að koma í ljós hvort veðurguðinn verður í betra skapi en í gær þannig að fólk komist leiðar sinnar.

  • Handboltalið Þórs fer á ferðina á ný eftir nokkura mánaða hlé frá keppni á Íslandsmótinu. Þórsarar sækja Valsmenn heim að Hlíðarenda og er leikurinn á dagskrá klukkan 15.00.

„Auðvitað eru menn spenntir að fara að keppa, því út á það snýst þetta,“ er haft eftir þjálfurum Þórs, Halldóri Erni Tryggvasyni og Þorvaldi Sigurðssyni, á heimasíðu félagsins, en þeir lýsa þó yfir áhyggjum vegna þess fjölda leikja sem framundan er á tiltölulega stuttum tíma. Stjórn HSÍ ákvað að halda því til streitu að leika heilt Íslandsmót og úrslitakeppni, ásamt bikarkeppni, þótt nánast ekkert hafi verið leikið fram að áramótum vegna Covid.

„Eins og sést úti núna, þá getur veturinn sett strik í reikninginn og svo auðvitað þetta álag á leikmönnum, þessi fjöldi leikja og ferðalög. En við reynum að vera skynsamir og hvíla leikmenn í vinnunni á milli æfinga og leikja,“ er haft eftir þjálfurunum.

  • Kvennalið KA í blaki á að mæta Þrótturum í Reykjavík í dag klukkan 15. Stelpurnar unnu Álftanes í síðustu umferð, 3:1, í KA-heimilinu.
  • Þórsarar taka svo á móti KR-ingum í Domino‘s deildinni í körfubolta í Höllinni í kvöld klukkan 20.00. Þórsstrákarnir hafa tapað fjórum fyrstu leikjunum, en hafa þrátt fyrir sýnt mjög góða frammistöðu á köflum og verður spennandi að sjá þá etja kappi við KR-inga, sem unnu nauman sigur á nýliðum Hattar á heimavelli fyrir helgi.
  • Fyrsti leikur karlaliðs KA á Íslandsmótinu í handbolta, eftir hið langa Covid- og HM-hlé, verður næsta fimmtudagskvöld þegar lið Aftureldingar kemur norður.
  • Leikur Vals og KA/Þórs á Íslandsmóti kvenna í handbolta, sem átti að vera í gær, hefur verið færður til mánudagskvölds.