Fara í efni
Þór

Handbolti: Afleitur dagur í KA-heimilinu

Jens Bragi Bergþórsson, línumaðurinn ungi og stórefnilegi, gerði sex mörk fyrir KA í dag. Hér skorar hann í bikarleiknum gegn Aftureldingu á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Selfyssingar brostu breitt í KA-heimilinu í dag en Akureyringar voru hins vegar afar niðurlútir enda unnu gestirnir tvo handbolaleiki í efstu deild Íslandsmótsins; karlalið Selfoss vann KA 35:29 og kvennaliðið sigraði KA/Þór 26:21.

Líkurnar á því að KA komist í úrslitakeppni Íslandsmóts karla minnkuðu enn með tapinu í dag. Möguleikinn er vissulega enn fyrir hendi, en þegar KA á fimm leiki eftir er liðið fimm stigum á eftir Haukum, sem er í áttunda sæti, því síðasta sem veitir rétt til þátttöku í úrslitakeppninni. Haukar eiga meira að segja einn leik til góða.

Öllu alvarlegra er þó að KA-menn eru að sogast niður í alvöru fallhættu; hafa nú 11 stig eftir 17 leiki en ÍR-ingar, sem eru næðst neðstir, eru með átta stig en hafa lokið 16 leikjum. Tvö neðstu liðin falla.

Fyrri hálfleikurinn var í jafnvægi, Selfyssingar tveimur mörkum yfir eftir fyrri 30 mínúturnar en höfðu mikla yfirburði í seinni hálfleik og náðu mest níu marka forystu.

Mörk KA: Gauti Gunnarsson 6, Jens Bragi Bergþórsson 6, Dagur Gautason 5, Einar Rafn Eiðsson 3 (1 víti), Ólafur Gústafsson 2, Allan Nordberg 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 8 (25%), Nicholas Satchwell 4 (21%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

KA á þessa leiki eftir:

  • Stjarnan – KA
  • KA – Afturelding
  • FH – KA
  • KA – Fram
  • Grótta – KA

Stelpurnar í KA/Þór höfðu eins marks forskot í hálfleik gegn Selfyssingum en dæmið snerist við í seinni hálfleiknum, gestirnir voru sterkari og unnu býsna örugglega.

Rut Jóns­dótt­ir lék með á ný eftir eins leiks frí vegna meiðsla og gerði fimm mörk fyrir KA/Þór. Matea Lonac lék vel í markinu, varði 18 skot, þar af eitt víti – var með tæp­lega 41% markvörslu. Cornelia Herm­ans­son í marki gestanna gerði enn betur; varði 19 skot – 47,5% þeirra skota sem hún fékk á sig.

KA/Þór er í 5.-6. sæti deildarinnar og ætti að komast í úrslitakeppnina.

Mörk KA/Þórs: Rut Jóns­dótt­ir 5, Júlía Björns­dótt­ir 4, Nathália Bali­ana 4, Ida Ho­berg 3, Lydía Gunnþórs­dótt­ir 2, Krist­ín A. Jó­hanns­dótt­ir 1, Anna Mary Jóns­dótt­ir 1, Aþena Ein­v­arðsdótt­ir 1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.