Fara í efni
Þór

Hall, Ben og Barnes á herrakvöldi Þórs

Hvað eiga Siggi Hall, Gummi Ben og John Barnes sameiginlegt? Þeir munu á einn eða annan hátt koma við sögu á Herrakvöldi Þórs sem fram fer í Íþróttahúsinu í Síðuskóla á laugardagskvöldið. Okkur skilst að það sé nær uppselt á kvöldið, mögulega örfáir miðar óseldir.

Eins og venja er verður ýmislegt gert til fjáröflunar fyrir utan auðvitað að gestir borði góðan mat, rifji upp gamlar afrekssögur og njóti landsþekktra skemmtikrafta. Á meðal þess sem Þórsarar hafa tekið upp á er að vera með uppboð á matarboði með Sigga Hall og Gumma Ben. Forvitnilegt hverjir munu sækjast eftir að bjóða hæst í slíka kvöldstund.

Treyjur þekktra knattspyrnumanna eru alltaf vinsælar og ein þeirra sem boðin verður upp á herrakvöldinu er árituð treyja af John Barnes, sem félagið fékk að gjöf frá Liverpool-skólanum, en Barnes er hvað þekktastur fyrir að hafa leikið með Liverpool og skorað helling af mörkum á árunum 1987 til 1997. Aðrir uppboðsmunir eru til dæmis nokkur forláta málverk og treyjur af Tryggva Snæ Hlinasyni, Alberti Guðmundssyni og Aroni Einari Gunnarssyni.

Á sama tíma og herrarnir skemmta sér í Síðuskóla verður kvennakvöld Þórs og KA í Sjallanum og svo sameinað í ball í Sjalla frá miðnætti. Við vitum ekki hvort þetta verður síðasta Sjallaballið, en líklega best að fólk skemmti sér vel ef svo skyldi fara.


Hver fer heim með þessa treyju á laugardagskvöldið?