Fara í efni
Þór

Hægt að slá margar flugur í einu höggi

Geir Hólmarsson, áhugamaður um íþróttastarf, leggur fram athyglisverðar hugmyndir í grein sem hann sendi Akureyri.net og birtist í morgun. Geir heldur því fram – eins og í fyrri grein, sem hann skrifaði í janúar – að íþróttahús á félagssvæði Þórs myndi leysa bæði aðstöðuvandamál Þórsara og KA-manna. Í dag bendir Geir á ýmislegt að auki sem nýtt hús gæti haft í för með sér; ekki er ofsagt að hann telji að með því að byggja íþróttahús á Þórssvæðinu megi slá margar flugur í einu höggi.

Áhugi Geirs á málefninu leynir sér ekki, enda hefur hann fengið fagmenn til þess að koma hugmyndum sínum að mannvirki á blað, og birtast þær myndir með greininni. Rétt er að taka fram að Geir lét gera myndirnar með vitund Þórsara – en segir hugmyndina alfarið sína.

Geir Hólmarsson segir meðal annars:

  • Með húsinu opnast nýr möguleiki fyrir almenningsíþróttir í bænum; íþróttahús á félagssvæði Þórs væri íþróttahús fullorðna fólksins á Akureyri.
  • „Frá morgni fram yfir síðdegiskaffið væri húsið helgað íþróttastarfi fullorðinna með áherslu á 60 ára og eldri. Lýðheilsuhús Akureyrar hvaðan lýðheilsustarfið í bænum yrði gert út. Betri heilsa, aukin hreyfing þeirra sem hverfa af vinnumarkaðinum.“
  • „Íþróttastarfið á daginn þarf ekki að vera undir merkjum Þórs en Þór myndi opna deildirnar sínar, þjálfun og aðstöðu þannig að Akureyringar gætu á daginn lagt stund á körfubolta, fótbolta, handbolta, göngufótbolta, körfuboltaþrautir, handboltaþrautir, badminton og pílukast ...“
  • Þetta eina hús og sú starfsemi sem nú þegar er á svæðinu myndi umbylta allri umgjörð fullorðinna Akureyringa til að rækta líkama og sál sem leiðir af sér betri heilsu þeirra og hamingjusamari tilveru.
  • Húsið myndi opna á möguleika Háskólans á Akureyri að bjóða upp á metnaðarfullt íþrótta- og þjálfunarnám Háskólans í Reykjavík fyrir norðan. Það myndi lyfta upp öllu íþróttastarfi allra félaga á svæðinu.
  • Þetta eina hús á Þórssvæðinu er sú einstaka aðgerð í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem getur af sér margfaldan ávinning langt út fyrir hefðbundið starf íþróttafélaganna.
  • Að reisa það ekki er beinlínis fjandsamlegt íþróttastarfinu í bænum.

Smellið hér til að lesa grein Geirs Hólmarssonar