Fara í efni
Þór

Góðir fótboltaskór: 10 mörk og gifting!

Kropið við altarið! Ljósmynd: @imagesbyophelia

Jóhann Helgi Hannesson, knattspyrnumaður í Þór, og Elín Dóra Birgisdóttir gengu í hjónaband um helgina við hátíðlega athöfn í Grundarkirkju í Eyjafirði. Það er auðvitað ekki í frásögur færandi heldur hitt, að Jóhann Helgi klæddist forláta fótboltaskóm við athöfnina; hvítum skóm með sex skrúfuðum tökkum!

„Ég stal hugmyndinni frá Nóa Björnssyni; hann gifti sig í takkaskóm á sínum tíma, og síðan ég sá mynd fyrir mörgum árum af Nóa þar sem hann kraup upp við altarið, hef ég verið ákveðinn í að ég myndi gifta mig í takkaskóm. Þetta var það flottasta sem ég hafði séð!“ segir Jóhann Helgi við Akureyri.net og þótti ekki leiðinlegt að feta í fótspor, eða takkaför, Nóa sem lengi var fyrirliði Þórsliðsins og síðan í fjöldamörg ár formaður stjórnar kvennaráðs Þórs/KA.

Brúðkaupsskóna hefur Jóhann Helgi notað töluvert á vellinum. „Ég keypti þessa skó fyrir níu árum, sumarið sem við Elín kynntumst,“ segir framherjinn sterki aðspurður. „Þeir hafa reynst mér vel. Ég er sennilega búinn að skora 10 mörk í þessum skóm og nú að fara í gegnum heilt brúðkaup í þeim. Það held ég sé ágætis nýting!“

Hvað sagði unnustan? Þorði Jóhann Helgi að segja henni frá uppátækinu?

„Jú, Elín Dóra vissi af þessu. Ég sagði henni fyrir sjö árum, þegar við trúlofuðum okkur, að ég ætlaði mér að giftast í takkaskóm. Henni fannst það fáránleg hugmynd þá en ég held henni hafi þótt það geggjað þegar ég var í þeim núna!“

Feðgarnir Hannes Kristjánsson og Jóhann Helgi í Grundarkirkju. Ljósmynd: @imagesbyophelia

Elín Dóra og Jóhann Helgi með börn sín tvö, sem heita Matti Freyr og Rúna Dís, í Grundarkirkju. Ljósmynd: @imagesbyophelia