Fara í efni
Þór

Góð frammistaða Þórs og þrjú stig – MYNDIR

Leikmenn Þórs fagna sigurmarki Bjarna Guðjóns Brynjólfssonar með Mjölnismönnum - fjörugum stuðningsmannahópi liðsins. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu 2:1 sigur á Vestra í leik sem fór fram í Boganum síðdegis eins og Akureyri.net greindi frá. Þetta var síðasti leikur fyrstu umferðar Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Heimamenn voru sterkari og sigurinn verðskuldaður.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
_ _ _

STEMMING Í STÚKUNNI
Mikil stemming var í stúkunni í dag þar sem stuðningsmenn Þórs voru mættir klæddir í rautt þar sem þeir sungu og hvöttu sína menn áfram. Mjölnismenn eru mættir!

_ _ _

SKOT RÉTT YFIR MARKIÐ
Bjarni Guðjón Brynjólfsson
, sem var frábær í dag, átti skot rétt yfir markið þegar korter var liðið af leiknum. Sóknin hófst á langri sendingu fram völlinn frá Aroni Birki markverði, þar sem Alexander Már gerði vel í að flikka boltanum á Bjarna sem keyrði inn völlinn frá vinstri og átti skot utan teigs, rétt yfir markið.

_ _ _

GLÆSILEG AUKASPYRNA  – 1:0
Bjarni Guðjón minnti aftur á sig aðeins mínútu seinna. Þá fékk hann boltann á svipuðum stað og þar sem hann átti skotið áður, en Bjarni náði ekki skoti þar sem varnarmaður Vestra braut á honum rétt utan teigs, vinstra megin við miðju og aukaspyrna dæmd. Daninn Marc Rochester Sörensen sem kom til Þórsliðsins fyrir tímabilið tók aukaspyrnuna og kom heimamönnum yfir með glæsilegu skoti. Spyrnan var ekki föst en hún var nákvæm og það dugði. Spyrnan fór yfir varnarvegg gestanna og í vinstra hornið þar sem Rafael Henrique, markmaður Vestra náði ekki til boltans.

_ _ _

VESTRI JAFNAR
Eftir að hafa sótt í sig veðrið mínúturnar á undan jöfnuðu Vestramenn metin rétt undir lok hálfleiksins – á 43. mín. Mikkel Jakobsen tók þá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Þórs. Aron Birkir kom út í teiginn til að kýla boltann frá en boltinn hafnaði í varnarmanni og skaust í átt að marki. Þá varð mikið klafs í teignum sem endaði með því að boltinn fór yfir línuna. Markið var skráð sem sjálfsmark á Bjarka Þór Viðarsson. Ódýrt mark að fá á sig en Vestramenn höfðu ekki fengið mörg opin færi í leiknum fyrir markið.

_ _ _

ALEXANDER FÉKK HEILAHRISTING
Alexander Már Þorláksson
þurfti að fara af velli undir lok fyrri hálfleiks en hann hafði fengið höfuðhögg fyrr í leiknum. Hann fór á sjúkrahús til frekari skoðunar. Inn á í hans stað kom Aron Ingi Magnússon en hann kom aftur til liðsins fyrir tímabilið eftir dvöl hjá Venezia á Ítalíu.

_ _ _

WARÉN REKINN AF VELLI
Leikmaður Vestra, Benedikt Warén fékk sitt annað gula spjald á 58. mínútu og þar með það rauða en Benedikt hafði stuttu áður fengið gult spjald fyrir brot. Lið Vestra komst í hættulega sókn og var Benedikt kominn inn í teiginn þegar hann féll við. Gunnar Hafliðason, dómari leiksins dæmdi þó ekki víti heldur fékk Benedikt gula spjaldið fyrir leikaraskap.

_ _ _

ÞREFÖLD SKIPTING
Stuttu eftir rauða spjaldið brást Þorlákur Árnason þjálfari Þórs við með þrefaldri skiptingu. Kristján Atli Marteinsson, Ingimar Arnar Kristjánsson og Birgir Ómar Hlynsson komu allir inn á og fór Þórsliðið í þriggja manna varnarlínu. Það var ljóst að nýta átti liðsmuninn og sækja öll stigin þrjú.

_ _ _

SIGURMARK BJARNA
Bjarni Guðjón Brynjólfsson
kórónaði góðan leik sinn með því að koma Þórsurum í 2:1 á 72. mínútu leiksins. Eftir góða pressu heimamanna fékk Valdimar Sævarsson, sem einnig spilaði vel í leiknum, boltann hægra megin á vallarhelmingi Vestra. Valdimar átti góða fyrirgjöf frá hægri utarlega í miðjan teiginn þar sem Bjarni Guðjón náði skalla sem hafnaði í netinu. Skallinn var ekki fastur en Bjarni gerði vel í að stýra boltanum í hornið. Bjarki fyrirliði horfir hér að neðan á eftir boltanum í markið og Þórsarar fögnuðu svo hressilega með Mjölnismönnum.

_ _ _

DAUÐAFÆRI ÞÓRS Í LOKIN
Undir lokin reyndu Vestramenn hvað þeir gátu til að jafna. En verandi einum færri opnaðist vörn þeirra oft í lokin. Valdimar Sævarsson fékk frábært færi til að koma Þór í 3:1 eftir skyndisókn. Aron Ingi vann þá boltann á eigin vallarhelmingi og keyrði upp völlinn. Hann sendi Valdimar svo í gegn sem hafði nægan tíma til að keyra inn á teiginn og skjóta en skotið var ekki nógu gott og Rafael í marki Vestra náði að koma út á móti og verja.