Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur Þórs og langþráður

Arturo Fernandez Rodriguez, sem hér er með boltann í kvöld, var frábær í leiknum og gerði 44 stig. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Karlalið Þórs í körfubolta fagnaði fyrsta sigri vetrarins í kvöld þegar Sindri frá Hornafirði kom í heimsókn í Höllina. Sigur Þórs var sannarlega langþráður, og sanngjarn og glæsilegur var hann. Lokatölur urðu 116:101.

Viðureignin var í 12. umferð 1. deildar Íslandsmótsins, næst efstu deild. Gestirnir höfðu unnið átta leiki í vetur en tapað þremur en Þórsarar höfðu tapað fyrstu 11 leikjunum.

  • Skorið eftir leikhlutum: 26:26 – 28:20 (54:46) – 32:29 – 30:26 – 116:101

Ljóst var strax í byrjun að Þórsarar ætluðu að selja sig dýrt í kvöld. Gestirnir byrjuðu að vísu heldur betur en stemningin var góð í Þórsliðinu sem hafði náð átta stiga forskoti þegar fyrri hálfleikur var allur. Eftir það var ekki aftur snúið.

Arturo Fernandez Rodriguez var frábær í Þórsliðinu; lang besti maður vallarins. Hann gerði 46 stig, fyrirliðinn Kolbeinn Fannar Gíslason gerði 19 stig og Toni Cutuk 17.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Kolbeinn Fannar Gíslason fyrirliði Þórsliðsins í baráttunni í kvöld. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Þórsarar fögnuðu að vonum innilega að leik loknum í kvöld. Þjálfairnn, Óskar Þór Þorsteinsson, lengst til hægri. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.