Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur Þórs á Snæfelli í Hólminum

Hrefna Ottósdóttir, sem hér hleypir af í Íþróttahöllinni á dögunum, gerði 20 stig í gær og Heiða Hlín Björnsdóttir, í rauðu treyjunni, gerði 19 stig. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stelpurnar í körfuboltaliði Þórs gerðu góða ferð í Stykkishólm í gærkvöldi: unnu afar dýrmætan sigur á Snæfelli, 75:60, í næst efstu deild Íslandsmótsins.

  • Skorið eftir leikhlutum: 15:25 – 14:15 (29:40) – 21:12 – 10:23 – 60:75

Þór og Stjarnan eru nú jöfn í efsta sæti með 30 stig en Snæfell er með 26 stig í þriðja sæti. Þórsarar hafa lokið einum leik meira en hin tvö liðin.

Fyrirkomulagið er þannig í deildinni að fjögur efstu liðin leika um eitt sæti í efstu deild að ári; lið 1 mætir liði 4 og liðin í 2. og 3. sæta mætast. Sigurliðin úr þeim viðureignum mætast í úrslitarimmu um sæti í efstu deild, Subway deildinni.

Hrefna Ottósdóttir gerði 20 stig fyrir Þór í gær, Heiða Hlín Björnsdóttir 19 og Madison Anne Sutton gerði 12 stig, auk þess að taka 22 fráköst og gefa 11 stoðsendingar!

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Flottir stuðningsmenn

Fámennur en öflugur hópur stuðningsmanna fylgdi Þórsliðinu í Stykkishólm í gær. Þarna voru á ferð nokkrir drengir úr 10. flokki Þórs og tók einn faðirinn í hópnum sig til og keyrði þá í Stykkishólm til að hjálpa liðinu. „Þeir eiga risastóran hlut í þessum sigri, eignuðu sér stúkuna,“ segir Daníel Andri Halldórssdon, þjálfari Þórs í viðtali við heimasíðu félagsins. Nánar hér um stuðningsmennina og baráttuna framundan hjá stelpunum.

Strákarnir sem skruppu í Stykkishólm í gærkvöldi til að styðja við bakið á Þórsstelpunum.