Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur á vængbrotnum Völsurum

Þórsarar sigri hrósandi um það bil sem leiknum lauk í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar fylgdu mögnuðum sigri á Tindastóli í vikunni eftir með með góðri frammistöðu og glæsilegum sigri á Val í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag - 98:89 - á Íslandsmótinu í körfubolta, Domino's deildinni. Þór er þar með kominn með fjögur stig í deildinni.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi var sem hér segir: 31:20 – 25:21 (56:41) – 21:21 – 21:27 (98:89)

Þórsarar byrjuðu með látum, staðráðnir í að halda uppi miklum hraða og fátt var um svör hjá Valsmönnum í fyrsta leikhluta. Leikstjórnandi Þórs, Dedrick Deon Basile, byrjaði frábærlega, var öruggur í sókninni og hitti vel. Hann gaf tóninn og aðrir fylgdu með; greinilegt var að Þórsarar voru búnir að stilla strengi sína vel saman fyrir leikinn.

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, var að vonum ánægður að leikslokum. Hann benti á að þetta væri góður tími til að mæta Valsmönnum, þeir væru án Bandaríkjamanns, Kristófer Acox væri meiddur og vitað mál að Jón Arnór Stefánsson myndi ekki spila meira en um það bil 25 mínútur. Þrátt fyrir allt þakkaði hann þó sigurinn vitaskuld frábærri frammistöðu sinna manna. „Við vissum að við ættum góða möguleika og undirbjuggum okkur rosalega vel. Við þekktum þeirra styrkleika og náðum að loka vel á þá,“ sagði Bjarki Ármann í viðtali við Þór TV.

Bjarki sagði, eins og þeir sáu sem fylgdust með útsendingunni, að áðurnefndur Dedrick og Ivan Aurrecoechea Alvolado voru stórkostlegir. Þá nefndi hann sérstaklega hörkutólið Andrius Globys. Hann hefði farið til augnlæknis daginn fyrir leik til öryggis því Litháinn hefði alls ekki viljað missa af leiknum. Hann fékk höfuðhögg gegn Tindastóli, var með blóðhlaupin augu og sprungin augnlok í gær, en var úrskurðaður í góðu lagi og lék geysilega vel í dag. Gerði níu stig, tók átta fráköst og átti fimm stoðsendingar.

Bjarki hrósaði einnig þeim Smára Jónssyni (7:03 mín.) og Kolbeini Fannari Gíslasyni (27:18 mín.) fyrir frábæra innkomu – enda hefur hann sagt áður að mjög mikilvægt sé að framlag íslensku leikmannanna sé þannig að það skipti máli.

Engir áhorfendur voru í Höllinni frekar en undanfarið en þeir sem voru á varamennabekk Þórs hverju sinni sáu um að halda uppi góðri stemningu og hvetja félaga sína til dáða. „Já, við erum að reyna að gefa strákunum orku og strákarnir á bekknum vita sitt hlutverk. Hlutverkaskiptingin er skýr og það hjálpar,“ sagði Bjarki Ármann.

  • Myndin að ofan: Dedrick Deon Basile með boltann í dag. Hann var frábær.

Ivan Aurrecoechea Alcolado skoraði 29 stig, tók 15 fráköst (8 í sókn og 7 í vörn) og átti 2 stoðsendingar.

Dedrick Deon Basile: 28 stig - 8 fráköst - 9 stoðsendingar.

Srdjan Stojanovic: 14 stig - 6 fráköst - 2 stoðsendingar.

Kolbeinn Fannar Gíslason: 12 stig - 4 fráköst - 1 stoðsending.

Andrius Globys: 9 stig - 8 fráköst - 5 stoðsendingar.

Smári Jónsson: 3 stig

Hlynur Freyr Einarsson: 3 stig - 1 frákast - 1 stoðsending

Alla tölfræði leiksins má finna hér

Srdjan Stojanovic reynir að komast framhjá Valsaranum Illuga Steingrímssyni í dag. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason.