Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur á toppliðinu í jólagjöf

Tomislav Jagurinovski og Arnar Þór Fylkisson léku afar vel gegn Herði í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar sigruðu Hörð frá Ísafirði í dag, 31:30, í Grill 66 deildinni í handbolta, neðri deild Íslandsmótsins.  Leikurinn var liður í 10. umferð deildarinnar og fór fram í íþróttahöllinni á Akureyri.

Sigurinn var gríðarlega dýrmætur í toppbaráttunni. Þegar jólafríið skellur á hafa efstu liðin lokið 10 leikjum; ÍR er með 18 stig, Fjölnir og Hörður 16 og Þór 14. ÍR vann ungmennalið Aftureldingar í dag, 36:25, og Fjölnir sigraði ungmennalið Hauka, 29:26.

Hörður var einu marki yfir í hálfleik, 15:14, en Þórsarar voru tiltölulega snöggir að ná forystunni í seinni hálfleik og létu hana ekki af hendi eftir það. Þeir voru þremur mörkum yfir um tíma en gestirnar að vestan neituðu að gefast upp og þegar Þórsarar hófu síðustu sóknina voru þeir einu marki yfir. Harðarmenn unnu boltann í blálokin og brunuðu fram í hraðaupphlaup en Arnar Þór Fylkisson, sem var frábær í marki Þórs í dag, varði með tilþrifum þegar sex sekúndur voru eftir.

Mörk Þórs: Tomislav Jagurinovski 12, Arnþór Gylfi Finnsson 6, Jóhann Einarsson 5, Viktor Jörvar Kristjánsson 3, Garðar Már Jónsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 1

Arnar Þór Fylkisson varði um 20 skot.