Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur á Grindvíkingum

Fannari Malmquist fagnað eftir frábært mark hans í dag. Frá vinstri: Liban Abdulahi, Guðni Sigþórsson, Hermann Helgi Rúnarsson, Jakob Snær Árnason, Fannar, Elmar Þór Jónsson og Ólafur Aron Pétursson. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á Grindvíkingum, 4:1, í Lengjudeild Íslandsmótsins í fótbolta í Boganum síðdegis. Þeir eru þar með komnir með þrjú stig eftir tvo leiki.

Þórsliðið tapaði í fyrstu umferðinni, 4:3 fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi í skemmtilegum leik og skemmtunin sem boðið var upp á í dag var enn meiri. Sjö mörk í tveimur leikjum er ekkert slor, og betra að fá bara eitt mark á sig en þrjú! Grindvíkingar unnu Vestmannaeyinga 3:1 á heimavelli í fyrstu umferð; ÍBV var spáð sigri í deildinni, liði Grindavíkur fjórða sæti og Þór því áttunda. Úrslitin til þessa koma því væntanlega einhverjum á óvart og því enn ánægjulegra en ella að sjá hve Þórsliðið spilar vel.

Öll mörkin voru gerð í stórskemmtilegum fyrri hálfleik; Jakob Snær gerði fyrsta markið með skalla á 12. mínútu eftir fyrirgjöf Bjarka Þórs Viðarssonar og Fannar Daði Malmquist Gíslason kom Þór í 2:0 aðeins þremur mínútum síðar með stórkostlegu skoti fyrir utan teig. Josip Zeba minnkaði muninn fljótlega en ekki leið á löngu þar til Bjarki Þór skoraði þriðja mark Þórs með skalla eftir aukaspyrnu Ólafs Arons Péturssonar. Fjórða markið gerði svo Guðni Sigþórsson á lokasekúndum hálfleiksins eftir að Aron Dagur í marki Grindvíkinga varði skot Fannars Daða.

Ótrúlegur fyrri hálfleikur

„Ég er í hálfgerðu sjokki, fyrri hálfleikurinn var gjörsamlega ótrúlegur – það allra besta sem ég hef séð til þessara stráka,“ sagði Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari Þórs við fótbolta.net eftir leikinn. Hann viðurkenndi að frammistaðan í seinni hálfleik hefði ekki verið eins góð og hans menn í raun heppnir að Grindvíkingar skyldu ekki ná að skora, enda með mjög gott lið.

Orri sagði, aðspurður, að Þórsarar hefði búið sig vel undir að sækja mikið upp hægri kantinn og það hefði tekist fullkomlega. Óhætt er að taka undir það; þrjú markanna voru eftir þeirri uppskrift.

Bjarki Þór, hægri bakvörður, sem lék sérlega vel í dag; bauð upp á reglulegar áætlunarferðir fram kantinn, lagði upp fyrsta markið og fleiri hættulegar sendingar.  Allir Þórsararnir léku í raun vel, frá aftasta manni til þess fremsta – einkum í fyrri hálfleik, þegar þeir gerðu mörkin en vörðust líka oftast vel þegar með þurfti. Grindvíkingar fengu reyndar fín færi, Daði markvörður bjargaði nokkrum sinnum vel en gerði slæm mistök þegar gestirnir skoruðu. Miðverðirnir ungu geta að mestu verið sáttir við frammistöðuna, Hermann hefur þegar öðlast töluverða reynslu og gaman að sjá Birgi Ómar við hlið hans, öruggan og yfirvegaðan eins og hann á kyn til. Bakverðirnir voru í miklum sóknarhug, Ólafur Aron og Liban voru góðir á miðjunni, Fannar var óhemju duglegur og kemur ekki á óvart, auk þess sem mark hans var algjört augnakonfekt. Framherjarnir voru sívinnandi og ógnandi og mikilvægt að Alvaro sé mættur til leiks. Skemmtileg staðreynd að Þórsarar hafi gert þrjú mörk í fyrsta leiknum og fjögur í dag, þegar hann var kominn í liðið og Alvaro hafi ekki verið á meðal markaskorara.

Grindvíkingar léku einum færri síðasta hálftímann eftir að Josip Zeba fékk að líta gula spjaldið öðru sinni og þar af leiðandi það rauða. Gestirnir játuðu sig þó ekki sigraða og reyndu hvað þeir gátu, en sigurinn var að sjálfsögðu mjög verðskuldaður þegar upp var staðið.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Orri Freyr, þjálfari Þórs, hafði sannarlega ástæðu til að fagna í dag. Hann er uppalinn Þórsari en lék líka í mörg ár með Grindavíkurliðinu.

Jakob Snær Árnason kom Þórsurum á bragðið með fallegu skallamarki.

Guðni Sigþórsson gerði fjórða mark Þórs á lokasekúndum fyrri hálfleiksins.

Alvaro Montejo var með Þórs í fyrsta skipti í sumar og duglegur að vanda.