Fara í efni
Þór

Glæsilegt mark í lokin og sætur sigur Þórs á Þrótti

Þórsarar gátu leyft sér að fagna vel og innilega í leikslok enda gríðarlega mikilvægur sigur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þór vann 2:1 sigur á Þrótti Reykjavík í 17. umferð Lengjudeildar karla, næst efstu deild karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvelli) nú í kvöld. Ragnar Óli Ragnarsson gerði sigurmark Þórsara á 90. mínútu leiksins en áður hafði Alexander Már Þorláksson jafnað metin í 1:1 í fyrri hálfleik.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Þórsara enda er afar stutt á milli liða í deildinni. Fyrir umferðina munaði aðeins sex stigum á liðinu í 5. sæti (umspilssæti) og 11. sætinu, sem er fallsæti. 

0:1 - AFLEIT BYRJUN ÞÓRS

Heimamenn byrjuðu leikinn vægast sagt hörmulega og voru Þróttarar margfalt sterkari fyrstu 15 mínútur leiksins. Heimamenn stilltu upp í 3-5-2 uppstillingu og gekk það svo illa að Þorlákur Árnason, þjálfari liðsins skipti yfir í 4-3-3 á 12. mínútu.

En áður en það gerðist voru Þróttarar búnir að skora, Hinrik Harðarson gerði það á 7. mínútu. Gestirnir unnu boltann á miðjunni og Steven Lennon átti góða sendingu inn fyrir varnarlínu Þórs sem var hátt á vellinum. Hinrik náði til boltans, keyrði inn í teiginn og lagði boltann fram hjá Aroni í markinu.
_ _ _

ÞRÓTTARAR FÁ VÍTI - ARON BIRKIR HETJAN

Útlitið versnaði svo fyrir heimamenn á 22. mínútu þegar Þróttarar fengu víti. Leikmaður gestanna lyfti boltanum hátt inn í teig Þórsara og Aron Ingi Magnússon var dæmdur brotlegur þegar hann flæktist saman við Guðmund Axel Hilmarsson og Þorvaldur Árnason benti réttilega á punktinn.

Hinrik Harðarson fór á punktinn en Aron Birkir Stefánsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Skot Hinriks var fast og beint á markið en Aron, sem skutlaði sér til vinstri, varði vel með fótunum. Við þetta virtust heimamenn loksins vakna og eftir vítavörsluna var allt annað að sjá til Þórsliðsins.

Vítavarslan frá Aroni Birki var gríðarlega mikilvæg og hreinlega vendipunktur leiksins. Aron Birkir spilaði frábærlega í dag og var vel á verði þegar á þurti að halda allan leikinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
_ _ _

1:1 - ALEXANDER MÁR JAFNAR METIN

Á 26. mínútu leiksins jafnaði Alexander Már Þorláksson metin fyrir Þórsara. Eftir pressu frá heimamönnum lagði Fannar Daði Malmquist boltann upp hægri kantinn þar sem Marc Sörensen keyrði upp að endamörkum. Hann átti síðan fasta og hárnákvæma sendingu milli markmanns og markteigs. Þar var Alexander Már mættur og sneiddi boltann í fjærhornið. Virkilega góð sókn Þórsliðsins og vel afgreitt hjá Alexander.

Eftir jöfnunarmarkið voru Þórsarar betri aðilinn á vellinum án þess að ná að bæta við marki fyrir hálfleik. Staðan var því jöfn 1:1 þegar flautað var til hálfleiks. Staða sem flestir heimamenn voru sáttir með eftir afleita byrjun á leiknum.
_ _ _

ÞÓRSARAR STERKARI EFTIR ÞVÍ SEM LEIÐ Á

Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og fengu bæði lið sénsa til að skora en þrátt fyrir það var ekki mikið um dauðafæri. En eftir því sem leið á jókst sóknarþungi Þórsliðsins á meðan gestirnir úr Laugardalnum virtust sáttari við eitt stig en heimamenn. Þórsliðið komst oft í góðar stöður en oft vantaði upp á rétta ákvörðun til þess að klára sóknirnar.
_ _ _

2:1 - RAGNAR ÓLI TRYGGIR SIGURINN Á 90. MÍNÚTU

Það stefndi allt í jafntefli þegar heimamenn fengu aukaspyrnu utan við teiginn á 90. mínútu þegar Alexander Már var felldur. Heimamenn sendu alla stóru mennina inn í teig. Marc Sörensen tók spyrnuna, átti góða fyrirgjöf inn í teig, Ragnar Óli Ragnarsson stökk manna hæst og skallaði boltann af krafti í fjærhornið. 

 

Ragnar Óli Ragnarsson skoraði sitt fyrsta mark í sumar og það var vægast sagt mikilvægt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og gríðarlega mikilvægur sigur Þórsara staðreynd. Annan leikinn í röð skora Þórsarar sigurmarkið þegar komið er fram á 90. mínútu. En Nökkvi Hjörvarsson gerði sigurmarkið gegn Ægi í seinustu umferð þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma.
_ _ _ 

Eftir leikinn er Þórsliðið í sjötta sæti deildarinnar, stigi á eftir Vestra sem er sem stendur í seinasta umspilssætinu. En sem fyrr segir er stutt á milli liða í deildinni og munar aðeins fjórum stigum á Þórsurum og Selfyssingum sem eru í tíunda sætinu. En næsti leikur Þórsliðsins er einmitt gegn Selfyssingum á Selfossi næsta sunnudag.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni.