Fara í efni
Þór

Gjaldkeri Þórs krefur bæjarfulltrúa svara

Teikning af fyrirhuguðum framkvæmdum á svæði Knattspyrnufélags Akureyrar.

Unnsteinn Jónsson, gjaldkeri Íþróttafélagsins Þórs, segir í pistli á Facebook í gærkvöldi – eins konar opnu bréfi til bæjarfulltrúa á Akureyri – að því verði að svara, áður en Akureyrarbær skrifi undir samning við Knattspyrnufélag Akureyrar um fyrirhugaða uppbyggingu á félagssvæði KA, hvernig eigi að reka þau viðbótarmannvirki. Unnsteinn spyr í ljósi þess að ekki séu til peningar til að reka þau mannvirki sem þegar er búið að byggja, eins og hann orðar það.

Pistill Unnsteins er svohljóðandi:

„Ágætu bæjarfulltrúar Akureyrarbæjar.

Áður en þið á næstu dögum undirritið samning við Knattspyrnufélag Akureyrar um uppbyggingu á svæði þess óska ég að þið skýrið fyrir bæjarbúum hvernig á að reka þessa viðbót. Munið að þeir sem borga brúsann eru skattgreiðendur.

Húsaleiga greidd til Fasteigna Akureyrar nam 1.050 milljónum króna árið 2020. Með þeirri uppbyggingu sem ætlunin er að fara í hjá KA má áætla að leiga hækki um meira en 100 milljónir á ári. Þar sem væntanlega á að nota nýju mannvirkin eitthvað þá eykst líka daglegur rekstrarkostnaður sem mæta þarf með hækkun á rekstrarsamningi við KA. Nýtt aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva er væntanlega nú þegar búið að hækka leigupakkann um allt að 20 milljónir á ári.

Í ár er rekstrarumhverfi þeirra félaga sem eru með rekstrarsamning við Akureyrarbæ þannig að skera þarf rekstur annan en laun niður um það sem nemur verðlagshækkunum frá fyrra ári. Gróft áætlað er félögunum gert að skera niður um 2 milljónir í ár. Það eru sem sagt ekki til peningar núna til að reka þau mannvirki sem búið er að byggja.

15. júní 2021 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarbæjar stjórnsýslubreytingar sem m.a. eiga að einfalda stjórnkerfið, lækka kostnað og bæta þjónustu. Takið eftir, það á að lækka kostnað ekki hækka.

Þess vegna þurfið þið ágætu bæjarfulltrúar að skýra út fyrir bæði skattgreiðendum og okkur sem komum að núverandi rekstri íþróttafélaganna hvernig þetta á að ganga upp. Á að hækka skatta, fækka starfsfólki, láta núverandi mannvirki drabbast niður eða gera eitthvað annað til að endar nái saman.

Unnsteinn Jónsson, gjaldkeri Íþróttafélagsins Þórs.“