Fara í efni
Þór

Garðurinn hans Gústa tekur á sig mynd

Eins gott að allt sé rétt! Óðinn Ásgeirsson og Guðmundur Ævar Oddsson með málbandið og Björn Sveinsson í hlutverki eftirlitsmanns. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Aðeins er vika síðan platan var steypt í Garðinum hans Gústa, körfuboltavelli sem verið er að útbúa á lóð Glerárskóla. Um helgina hvarf svo grátt steypulagið sjónum manna þegar áberandi rautt og blátt „gólf“ var lagt á sinn stað, og settar voru upp nokkrar körfur.

Veg og vanda að verkinu hafa lærisveinar og vinir Ágústs H. Guðmundssonar heitins, körfuboltaþjálfara, sem lést langt fyrir aldur fram í byrjun árs. Nokkrir þeirra unnu við völlinn bæði á laugardag og sunnudag; hendur voru látnar standa fram úr ermum þótt kalt væri í veðri, enda hópnum umhugað um að ljúka ákveðnum þáttum áður en snjóar og frystir.

Ýmislegt er eftir, til dæmis að reisa netta áhorfendastúku og dýfa pensli í fötu til að merkja völlinn. Mannvirkið verður formlega afhent Akureyrarbæ næsta sumar.

Steypa plötuna í Garðinum hans Gústa

Skóflustunga tekin að Garðinum hans Gústa

Gamlir lærisveinar og vinir Ágústs H. Guðmundssonar, sem voru að störfum í Garðinum um helgina. Frá vinstri: Guðmundur Ævar Oddsson, Hrafn Jóhannesson, Björn Sveinsson, Óðinn Ásgeirsson og Einar Örn Aðalsteinsson.