Fara í efni
Þór

Fyrstu mörkin á stórmóti: „Frábær tilfinning“

Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði Íslands, og Oddur Gretarsson, á hóteli landsliðsins í Kaíró. Ljósmynd: Ívar Benediktsson.

Oddur Gretarsson kom við sögu í stórsigri Íslands, 39:24, á Alsír á HM í handbolta í gær. Oddur, sem lék síðasta kortér leiksins, gerði þrjú mörk – þau fyrstu á þessum vettvangi. 

„Þetta eru fyrstu mörkin mín á stórmóti. Það var frábær tilfinning að koma inn í þetta og snerta aðeins á boltanum,“ sagði Oddur þegar Akureyri.net náði sambandi við hann í gærkvöldi. Hann kom ekkert við sögu í fyrsta leiknum gegn Portúgal. Bjarki Már Elísson fór hamförum í leiknum og gerði 12 mörk, þar af sjö úr vítum, en Oddur leysti hann af í vinstra horninu síðustu 15 mínúturnar. Um að gera fyrir Guðmund þjálfara að slá tvær flugur í einu höggi með því að þreyta aðalmennina ekki um of, og leyfa þeim sem eru til taks að spreyta sig.

Oddur hefur verið viðloðandi landsliðshópinn annað slagið síðasta áratuginn en ekki farið á stórmót síðan 2011. Hann var með liðinu á HM í Svíþjóð 2011 og á EM í Serbíu 2012 en lék nánast ekki neitt í hvorugt skiptið.

Hinn Þórsarinn í landsliðinu, Arnór Þór Gunnarsson fyrirliði, gerði tvö mörk í leiknum; fyrsta mark leiksins og það síðasta í fyrri hálfleik, bæði úr hægra horninu. Hann lék fyrri hálfleikinn, eins og undanfarið en Sigvaldi Björn Guðjónsson leysti hann af hólmi eftir hlé.

Mörk akureyrsku „strákanna okkar“ í Egyptalandi í gær

  • 1:0 Arnór Þór skorar úr hægra horninu á 1. mín. eftir sendingu Gísla Þorgeirs Kristjánssonar. Addi skoraði úr þröngu færi þegar 37 sekúndur voru liðnar.
  • 22:10 Arnór Þór skorar aftur úr horninu, eftir glæsilega sendingu Viggós Kristjánssonar, þegar sjö sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik.
  • 30:16 Oddur Gretarsson skorar úr vinstra horninu eftir góða sendingu Gísla Þorgeirs Kristjánssonar. Þá voru liðnar 44 mín. og 36 sekúndur. Oddur var nýkominn inná og þetta var fyrsta skot hans.
  • 32:17 Oddur skorar aftur úr horninu, nú í hraðaupphlaupi eftir sendingu Elliða Snæs Viðarssonar. Þá voru 46 mín. og 11 sek. liðnar.
  • 38:21 Oddur skorar enn úr horninu, nú eftir sendingu frá Magnúsi Óla Magnússyni, þegar 57 mín. og 30 sek. voru liðnar.