Fara í efni
Þór

Fyrstu mörk Elmars og Þórsarar fengu stig

Elmar Þór Jónsson gerði bæði mörk Þórs í Njarðvík í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bakvörðurinn Elmar Þór Jónsson skoraði bæði mörk Þórs í dag þegar liðið gerði 2:2 jafntefli við Njarðvík á útivelli í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Rok og rigning var meðan leikið var, sem þykir ekki stórfrétt suður með sjó, en stundin var hins vegar söguleg að því leyti að Elmar Þór hafði ekki skorað áður fyrir meistaraflokk á Íslandsmótinu. Leikurinn markaði líka þau tímamót að Þórsarar nældu í eitt stig – það fyrsta á útivelli í sumar, í fjórðu tilraun – og liðið hafði heldur ekki skorað á útivelli á leiktíðinni.

  • 1:0 – Þorsteinn Örn Bernharðsson kom heimaliðinu yfir strax á 6. mínútu eftir horn. Misskilningur varnarmanna gerði það að verkum að hann fékk óáreittur að þruma á markið af stuttu færi. 
  • 1:1 Elmar Þór Jónsson gerði fyrra mark Þórs, og sitt fyrsta á Íslandsmóti, á 20. mín. Eftir að boltinn var sendur inn á vítateig af hægri kanti skaut Alexander Már Þorláksson í þverslá, boltinn hrökk til hins sókndjarfa Elmars sem kominn var inn í teig og skoraði með föstu skoti.
  • 2:1 Oumar Diouck gerði seinna mark Njarðvíkur á 52. mín. og voru Þórsarar afar óhressir með að ekki var dæmt brot á markaskorarann í aðdragandanum því hann stuggaði harkalega við Bjarka Þór Viðarssyni.

Þórsarar fengu gullið tækifæri til að jafna 10 mín. eftir seinna mark Njarðvíkur þegar þeir fengu víti. Það var býsna harður dómur; varnarmaður togaði að vísu í treyju Alexanders Más, en sjaldnast er dæmt á svona lagað auk þess sem hann náði að senda boltann. Alexander tók vítið sjálfur, skaut á mitt markið en svo illa vildi til að markvörður Njarðvíkinga, Robert Blakala, stóð grafkyrr. Skotið kom því beint á hann, Blakala kýldi boltann frá og fagnaði ógurlega.  

  • 2:2 Elmar Þór Jónsson jafnaði aðeins nokkrum augnablikum eftir að Blakala varði vítaspyrnuna. Njarðvíkingar björguðu í horn eftir vítið og aftur eftir þá hornspyrnu. Elmar Þór skundaði þá yfir að hornfánanum hægra megin, spyrnti fyrir markið og gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnunni; boltinn flaug í markið við nærstöngina og tilburðir Blakala markvarðar voru afar klaufalegir og viðbrögðin önnur en eftir vítið! Vert er þó að geta þess að hann lék mjög vel og heimamenn geta ekki síst þakkað honum fyrir stigið.

Þórsarar eru nú í 5. sæti deildarinnar með 13 stig en ÍA og Grindavík, sem bæði unnu í dag, eru komin með 14.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna