Fara í efni
Þór

Fyrsta þrenna Arons afmælisgjöf Olivers

Aron Einar Gunnarsson glaður í bragði eftir að hann gerði annað mark sitt í Liechtenstein í dag með laglegum skalla eftir horn. Ljósmynd: Hafiðið Breiðfjörð - fotbolti.net

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins í knattspyrnu, gerði þrjú mörk fyrir Ísland í 7:0 sigri á Liechtenstein í undankeppni Evrópukeppninnar í dag. Leikið var í Vaduz, höfuðborg smáríkisins og sigurinn er sögulegur; stærsti sigur Íslands í undankeppni stórmóts.

Leikurinn í dag var sá 101. sem Aron tekur þátt í með landsliðinu. Í fyrstu 100 leikjunum hafði hann gert tvö mörk og því kom skemmtilega á óvart að fyrirliðinn skyldi skora í þrígang í dag. Hann lék í vörninni að þessu sinni, en tvö markanna gerði Aron með skalla eftir horn og það þriðja úr vítaspyrnu.

Þrenna og stoðsending

Leikurinn var sýndur beint á streymisveitunni Viaplay. „Þetta er skemmtileg afmælisgjöf fyrir Oliver litla sem er átta ára í dag,“ sagði Aron Einar í viðtali við Viaplay strax eftir leik. Oliver, elsti sonur þeirra Kristbjargar Jónasdóttur, fæddist þegar faðirinn var í landsliðsferð í Kasakhstan 2015. „Hann fær þennan bolta þegar ég kem heim!“ sagði Aron glaðbeittur á Viaplay.

Auk þess að skora þrennu átti Aron Einar stoðsendingu á Hákon Arnar Haraldsson þegar hann kom Íslandi í 2:0 á 38. mínútu. Fyrirliðinn sendi glæsilega inn á teig, Hákon tók vel á móti boltanum og skoraði með hnitmiðuðu skoti

  • MARK 1 – Jón Dagur Þorsteinsson tók hornspyrnu frá hægri á 48. mínútu og Aron Einar skoraði með föstum skalla í nærhornið af markteig. Staðan orðin 3:0.
  • MARK 2 – Jón Dagur tók aftur hornspyrnu frá hægri og Aron Einar sneiddi boltann laglega með höfðinu í fjærhornið af markteig. Þetta var á 67. mínútu. Staðan orðin 4:0.
  • MARK 3 – Ísland fékk vítaspyrnu á 73. mínútu. Aron steig fram og skoraði af miklu öryggi efst í vinstra hornið. Staðan orðin 5:0.

Aron skoraði fyrst fyrir landsliðið 10. október árið 2014, í 3:0 sigri á Lettum á útivelli í undankeppni EM.

Annað mark Arons Einars fyrir landsliðið kom í 2:1 sigri á Tékkum á Laugardalsvelli 12. júní 2015, í undankeppni EM í Frakklandi.

Fótboltavefur Íslands, fotbolti.is, fjallar að sjálfsögðu ítarlega um leikinn í dag. Smellið hér til að lesa um leikinn

fotbolti.net