Fara í efni
Þór

Fyrsta tap Þórsara á heimavelli í sumar

Aron Ingi Magnússon jafnaði metin fyrir Þór þegar um hálftími var liðinn af leiknum. Það dugði þó ekki til og gestirnir fóru með öll stigin með sér í Mosfellsbæ. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 3:1 gegn toppliði Aftureldingar á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í 12. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í dag. Aron Ingi Magnússon gerði eina mark Þórs í leiknum. Þetta var fyrsta tap Þórsara á heimavelli í deildinni í sumar.

FJÖRUGUR FYRRI HÁLFLEIKUR

Töluvert jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og fengu bæði liðin ágæta sénsa til að skora. Arnór Gauti Ragnarsson, markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar, komst næst því að skora fyrir gestina á 14. mínútu þegar hann fékk skotfæri inn í teig en skot hans fór rétt fram hjá markinu.

Á 28. mínútu komust gestirnir úr Mosfellsbæ yfir. Eftir langt innkast inn í teig frá Arnóri Gauta áttu Þórsarar í erfiðleikum með að koma boltanum frá. Að lokum barst boltinn aftur inn í teig þar sem Ásgeir Marteinsson náði að flikka honum á Elmar Kára Ennesson sem var fyrstur að átta sig og kom boltanum fram hjá Aroni Birki í markinu.

Forysta gestanna lifði þó ekki lengi því á 33. mínútu jafnaði Aron Ingi Magnússon metin fyrir Þórsliðið. Eftir góða sókn Þórsara barst boltinn niður í vörnina á Birgi Ómar Hlynsson. Hann átti frábæra sendingu inn fyrir vörn gestanna á Alexander Má sem var kominn einn gegn Yevgen í markinu. Alexander var óeigingjarn og lagði boltann fyrir á Aron Inga sem gat ekki annað en skorað. Heimamenn búnir að jafna verðskuldað en liðið brást vel við að fá markið á sig.

Stuttu síðar komust Aftureldingarmenn þó aftur yfir. Oliver Bjerrum Jensen gerði markið á 41. mínútu leiksins með frábæru skoti. Boltinn barst þá út Oliver við vítateigslínuna, hann hamraði boltanum upp í vinkilinn fjær, óverjandi fyrir Aron Birki.

Staðan var 2:1 Aftureldingu í vil þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins flautaði til loka fyrri hálfleiks. Heimamenn gátu verið svekktir með þá stöðu en liðið spilaði vel stóran hluta hálfleiksins en klaufagangur í vörninni varð þeim að falli.

_ _ _

RÓLEGRA YFIR Í SEINNI HÁLFLEIK

Seinni hálfleikurinn var rólegri en sá fyrri. Heimamenn reyndu að jafna og voru á köflum meira með boltann. Gestirnir voru þó alltaf hættulegir þegar þeir komust í færi og Aron Birkir varði oft frábærlega í seinni hálfleiknum.

Á 79. mínútu gulltryggði Arnór Gauti Ragnarsson sigur Aftureldingar með þriðja marki þeirra í leiknum. Löng sending barst þá yfir vörn Þórsara og Akseli tapaði einvíginu um boltann við Arnór. Hann tók boltann á kassann með sér inn á teig og hamraði boltann í stöngina og inn. Stuttu áður hafði Aron Birkir varið frábærlega frá Arnóri sem var í dauða færi inn í teignum en í þetta skipti tókst honum að skora.

_ _ _

VERÐSKULDAÐUR SIGUR GESTANNA

Fleiri mörk voru ekki skoruð í dag. Lokatölur 3:1 fyrir Aftureldingu og fyrsta tap Þórs á heimavelli í deildinni staðreynd. Eftir leikinn er liðið í áttunda sæti deildarinnar með 14 stig. Gestirnir eru hins vegar enn á toppi deildarinnar með 32 stig og stefna hraðbyri að sæti í efstu deild að ári.

Sigurinn var verðskuldaður þegar uppi er staðið. Afturelding gerði vel í að nýta sín færi á meðan Þórsliðinu gekk illa að skapa opin færi þrátt fyrir að vera oft í ágætri stöðu. Næsti leikur Þórsliðsins er útileikur gegn Vestra þann 22. júlí næstkomandi.

Smelltu hér til að sjá stöðunna í deildinni

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum