Fara í efni
Þór

Fyrsta keppni á vegum Þórs í hnefaleikum

Keppendur í fyrsta mótinu sem Þórsarar halda. Ágúst Davíðsson úr Þór, sem fékk gullmerki Hnefaleikasambands Íslands fyrir framúrskarandi árangur, stendur lengst til vinstri.

Fyrsta hnefaleikakeppni á vegum íþróttafélagsins Þórs fór fram um síðustu helgi, í sal hnefaleikadeildar Þórs í íþróttahúsinu við Laugargötu. Um var að ræða svokallað diplómamót unglinga, og voru keppendur 12, á aldrinum 13 til 19 ára. Átta voru frá Þór og fjórir frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar.

Á árunum um og upp úr 1920 lögðu Þórsarar stund á hnefaleika en ekki hafa fundist heimildir um að keppt hafi verið í íþróttinni, segir á heimasíðu Þórs, „og því teljum líklegt að mót þetta sé fyrsta hnefaleikamótið sem haldið er undir merkjum Þórs,“ segir þar.

Eftirtaldir fengu viðurkenningar:

Þórsararnir Gunnar Benedikt Hansen Einarsson, Alan Mackiewicz, Igor Biernat og Hlynur Andri Friðriksson hlutu diplómaviðurkenningu fyrir hæfilega frammistöðu í frumraun í hringnum og Ágúst Davíðsson, einnig úr Þór, fékk gullmerki Hnefaleikasambands Íslands (HNÍ) fyrir framúrskarandi árangur. Að auki hlaut María Rún Jóhannsdóttir frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar bronsmerki HNÍ.

Diplomahnefaleikar og ólympískir

Á Íslandi eru í boði tvö keppnisform hnefaleika; diplomahnefaleikar og ólympískir hnefaleikar, segir á heimasíðuð Hnefaleikasambands Íslands.

Á heimasíðunni segir:

Diplomahnefaleikar eða byrjendahnefaleikar eru mildari útgáfa af hnefaleikaíþróttinni með sérstökum reglum.

Diplomaviðureign er ekki dæmd eftir því hversu oft maður hittir andstæðinginn – það er stranglega bannað að slá fast – heldur er í staðinn dæmt eftir tækni og framferði hnefaleikarans í hringnum. Í diplomaviðureign má ekki undir neinum kringumstæðum felast harka og keppendur eru ávítaðir ef þeir setja of mikinn kraft í höggin. Dæmt er á 5 stiga skala, þar sem 3 stig samsvara hæfilegri kunnáttu og hinn fullkomni boxari fengi 5 stig. Það sem iðkendur læra er:

  • að boxa mjúkt og tæknilega
  • að sýna kunnáttu sína
  • að aðlagast að andstæðingnum

Hver viðureign er þrjár lotur og dæmdar af þremur stigadómurum og einum hringdómara. Ef keppanda tekst að safna 27 stigum (3 lotur x 3 dómarar x 3 stig) eða meira mun sá hinn sami hljóta viðurkenningu fyrir kunnáttu sína og útskrifast sem fullgildur hnefaleikari.

Frá mótinu sem Þórsarar héldu um síðustu helgi.