Fara í efni
Þór

Frumraun fjögurra hjá Þór/KA í efstu deild

Glaðar í bragði á heimleið í gærkvöldi. Frá vinstri: Melissa Anna Lowder, Karlotta Andradóttir, Amalía Árnadóttir og Dominique Jaylin Randle.
Fjórir leikmenn Þórs/KA þreyttu frumraun sína í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar liðið vann Stjörnuna 1:0 í Garðabæ í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í gær.
 
Amalía Árnadóttir og Karlotta Andradóttir höfðu aldrei komið við sögu í efstu deild. Það sama má vitaskuld segja um erlendu leikmennna tvo sem bættust í hópinn fyrir tímabilið enda ekki leikið með íslensku liði áður.
 
  • Amalía Árnadóttir kom inn á eftir aðeins átta mínútur þegar Steingerður Snorradóttur varð að fara af velli vegna meiðsla. Amalía varð svo að fara út af rétt fyrir leikslok – á 88. mínútu – eftir að boltanum var spyrnt fast í höfuð hennar. Amalía er 16 ára, fædd 2006. Hún verður 17 ára í ágúst.
  • Karlotta Andradóttir kom inná í blálokin fyrir Karen Maríu Sigurgeirsdóttur. Karlotta er aðeins 15 ára, verður 16 ára í júlí.
  • Melissa Anna Lowder stóð í marki Þórs/KA í gær. Hún kom til liðsins í vetur en lék síðast með San Diego Wave í Bandaríkjunum.
  • Varnarmaðurinn Dominique Jaylin Randle kom einnig til Þórs/KA í vetur. 
  • Það var Kristín Dís Kristinsdóttir sem leysti Amalíu af hólmi í gær. Þetta var aðeins í annað skipti sem hún kemur við sögu í efstu deild, Kristín Dís kom inná í leik gegn Selfyssingum á útivelli í fyrra og lék nokkrar síðustu mínútur leiksins. Hún er einnig fædd 2006, verður ekki 17 ára fyrr en í október.