Fara í efni
Þór

Frábær byrjun Þórsara en Keflvíkingar unnu

Ragnar Ágústsson, til hægri, var einna bestur Þórsara í Keflavík í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu fyrir Keflvíkingum á útivelli í kvöldi, 97:77, í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Subway deildinni. Keflvíkingar eru nú á toppi deildarinnar ásamt Þór í Þorlákshöfn með 24 stig. Þórsarar eru neðstir sem fyrr með einungis tvö stig.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 18:20 – 19:28 – 37:48 – 29:14 – 31:15 – 97:77

Þórsarar unnu bæði fyrsta og annan leikhluta og höfðu 11 stiga forystu í hálfleik. Það var óvænt staða en Keflvíkingar höfðu ekki áhyggjur, vita vel að hlutirnir geta breyst hratt í körfubolta og sú varð raunin. Heimamenn tóku öll völd í seinni hálfleik og unnu öruggan sigur þegar upp var staðið.

Frammistaða Þórs var gleðileg og kom ánægjulega á óvart, ekki síst í ljósi þess að Bandaríkjamaðurinn Reginald Keely er farinn til síns heima og leikstjórnandinn, Dúi Þór Jónsson, missti af leiknum vegna veikinda. Að auki er þjálfarinn, Bjarki Ármann Oddsson, með Covid og gat ekki farið með en aðastoðarmaður hans, Jón Ingi Baldvinsson, stýrði liðinu í kvöld.

Eric Etienne Fongue, Ragnar Ágústsson og Augst Emil Haas, Daninn sem nýlega kom til Þórs, voru bestu menn liðsins. Þá var Baldur Örn Jóhannesson öflugur. Fongue gerði 25 stig og tók þrjú fráköst, Ragnar gerði 12 stig og tók átta fráköst og Haas gerði 17 stig, tók tvö fráköst og átti hvorki fleiri né færri en 12 stoðsendingar. Baldur gerði 11 stig og tók átta fráköst.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.