Fara í efni
Þór

Frábær byrjun en Þór tapaði fyrir Keflavík

Dúi Þór Jónsson lék mjög vel í kvöld; gríðarlegur fengur fyrir Þórsara að fá hann í vetur. Keflvíkingarnir eru Halldór Garðar Hermannsson, til vinstri, og Ágúst Orrason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu fyrir Keflvíkingum í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Subway deildinni, í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld, 70:56. Leikmenn Þórs byrjuðu afar vel en gestirnir hittu aftur á móti ótrúlega illa enda staðan eftir fyrsta leikhluta 21:12. Hreint ótrúlegar tölur.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 21:12 – 10:25 – 31:37 – 12:17 – 13:16 – 56:70

Eins og tölurnar bera með sér var byrjunin frábær hjá Þór. Eric Fongue gerði þrjár 3ja stigakörfur í fyrsta leikhluta og 13 stig alls, en skoraði síðan ekki meira það sem eftir var leiks. Keflvíkingar lögðu áherslu á að verjast honum og gestirnir gerðu Þórsururum erfitt fyrir með frábærri vörn, sem sést á því hve lítið heimamenn skora í leiknum; 56 stig er ekki vænlegt til árangurs og Keflvíkingar skoruðu reyndar líka óvenju lítið.

Keflvíkingar eru með marga góða leikmenn – mikla breidd í hópnum – og svo fór að þeir unnu nokkuð örugglega. Gátu látið flesta leika mikið. Þórsarar urðu fyrir mikilli blóðtöku þegar tveir útlendinganna sem komu til þeirra í haust meiddust og hurfu á brott. Samið hefur verið við tvo í staðinn og var annar þeirra í hópnum en kom ekki inn á; meiddist á fyrstu æfingu! Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, segir þó að meiðslin séu ekki alvarleg og leikmaðurinn, Svisslendingurinn Jérémy Jean Bernard Landenbergue, verði með í næsta leik eftir viku. Þá er von á Bandaríkjamanninum Reggie Keely, sem verður einnig með þá.

Þórsliðið sýndi fína takta framan af og spennandi verður að sjá þegar nýju útlendingarnir bætast við. Breiddin eykst og liðsheildin, var flott framan af leik í kvöld verður án efa töluvert sterkari, fleiri ættu að geta tekið af skarið og lykilmenn fengið að setjast á bekkinn annað slagið í stund til að hlaða batteríin.

Bakvörðurinn Dúi Þór Jónsson var frábær í leiknum og lék hverja einustu sekúndu; var á vellinum 40 mínútur. Hann gerði 20 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Framlag hans var 18 skv. stigatölfu KKÍ, meira en nokkurs annars á vellinum.

Eric Etienne Fongue, sem lenti í hörðum árekstri á mánudaginn en slasaðist sem betur fer ekki að ráði, byrjaði frábærlega eins og áður kom fram en gestirnir höfðu góðar gætur á honum eftir það.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Ekkert gefið eftir! Atle Bouna N'Daiye reynir að ná boltanum á undan andstæðingi í kvöld.  Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson. 

Jérémy Jean Bernard Landenbergue, svissneskur leikmaður sem kom til Þórs í vikunni, er hér fjórði frá hægri. Hann var á leikskýrslu en kom ekki við sögu vegna meiðsla sem hann varð fyrir á fyrstu æfingu. Hann á að vera klár í slaginn eftir viku gegn Þór í Þorlákshöfn. 

Birgir Örn Hjörvarsson, einn þriggja dómara leiksins, og Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs.