Fara í efni
Þór

Foreldrarnir stoltir af landsliðsfyrirliðunum

Foreldrar bræðranna fyrir HM í knattspyrnu í Rússlandi 2018. Gunnar Malmquist Gunnarsson með landsliðstreyju Arnórs Þórs og Jóna Arnórsdóttir með landsliðstreyju Arons Einars. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jóna Arnórsdóttir og Gunnar Malmguist Gunnarsson, foreldrar landsliðsbræðranna Arnórs Þórs og Arons Einars, hafa ætíð verið stolt af sonum sínum en stoltið hlýtur að hafa verið í hæstu hæðum í dag, eftir að tilkynnt var að Arnór Þór yrði fyrirliði landsliðsins í handbolta í kvöld gegn Portúgal. Ekki hefur verið tilkynnt formlega að hann verði fyrirliði á heimsmeistaramótinu, en það er nær öruggt. Aron hefur í mörg ár verið fyrirliði fótboltalandsliðsins og er það talið einsdæmi í heiminum að bræður séu fyrirliðar landsliða hvor í sinni greininni á sama tíma.

„Ég er að sjálfsögðu mjög stoltur að eiga þessa drengi, það er ekki hægt annað,“ sagði faðir þeirra, Gunnar Malmquist Gunnarsson, við Akureyri.net í dag og sagðist ekki geta neitað því þegar spurt var hvort hann væri ekki að rifna úr monti! Enda að sjálfsögðu engin ástæða til þess að leyna því.

Spurður hvort það kæmi honum á óvart að synir hans væru báðir landsliðsfyrirliðar, svaraði Gunnar: „Það kom mér alls ekki á óvart með Aron. Eins og Arnór aktar inni á vellinum nú orðið kemur mér það heldur ekkert á óvart, en ég átti ekki von á því þegar hann var yngri. Það er versta helvítið að ég er með einhvern hnút í maganum vegna leiksins í kvöld. Og kannski enn verra að ég er alltof góður spámaður! En ég vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér í þetta skipti.“

Jóna Arnórsdóttir, móðir strákanna og eiginkona Gunnars, var ekki síður glöð. „Það var mjög gaman að fá þær fréttir að honum hafi verið sýndur sá heiður að taka að sér þetta hlutverk, og ég hef fulla trú á honum sem fyrirliða,“ sagði Jóna um tíðindi dagsins. „Já, ég er svo sannarlega stolt af þessum drengjum, og þakklát fyrir það hlutverk sem þeir hafa gegnt við að skemmta okkur og gleðja síðustu ár,“ sagði hún við Akureyri.net.

Þegar náðist í Jónu var hún á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn. Beið þar eftir flugi til Frankfurt í Þýskalandi og þaðan ætlaði hún með lest til bæjarins Solingen. Þar bíða hennar Jovana Lilja Stefánsdóttir, eiginkona Arnórs Þórs, og börnin Díana, sem er átta ára, og sonurinn Alex Þór, sem fæddist 29. nóvember. Jóna verður hjá þeim meðan HM stendur stendur yfir í Egyptalandi.

„Ég verð ekki komin á áfangastað fyrr en mjög seint í kvöld, og hlakka mikið til að sjá afleggjarana mína þar,“ sagði Jóna.