Fara í efni
Þór

„Flautumark“ og grátlegt tap Þórs

Sigurmark á síðustu stundu! Omar Sowe skorar eina markið með skalla eftir hornspyrnu þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir hefðbundinn leiktíma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu að játa sig sigraða (1:0) þrátt fyrir góða frammistöðu gegn Leikni í Reykjavík í dag í Lengjudeildinni, næstu efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. 

Sólin skein í Breiðholtinu og bæði lið kunnu vel við prýðilegar aðstæður. Viðureignin var fín skemmtun og líklega var þetta besti leikur Þórs á útivelli í sumar. Uppskeran á heimavelli hefur verið góð, liðið hefur unnið alla leiki nema einn þar, en gengið á útivelli hefur verið afleitt.

Bæði lið fengu upplögð tækifæri til að skora í dag en allt stefndi í markalaust jafntefli þrátt fyrir það. Þegar fimm mínútna uppbótartími var um það bil úti náðu heimamenn hins vegar að skora; þeir fengu hornspyrnu og Omar Sowe stökk manna hæst í vítateignum og skallaði boltann af miklum krafti í netið. Sannarlega grátleg niðurstaða fyrir Þórsara sem hefðu án nokkurs vafa átt skilið að minnsta kosti eitt stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna