Fara í efni
Þór

Fjör á Evrópukvöldi – stórleikur við Val í dag

Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Stórleikur 7. umferðar Olís deildar kvenna í handbolta verður að Hlíðarenda í dag þegar Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs sækja Valsmenn heim. Valur er í efsta sæti með 12 stig eftir sex leiki – hefur unnið alla leikina. KA/Þór er með níu stig eftir sex leiki; hefur unnið fjóra leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum.

Leikur Vals og KA/Þórs hefst klukkan 16.00 í dag. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Stelpurnar okkar halda til Spánar og leika tvo Evrópuleiki við CB Elche í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar um næstu helgi. Fyrri leikurinn verður laugardaginn 20. nóvember og sá síðari daginn eftir. Kvennaráð KA/Þórs hélt fjáröflunarkvöld á fimmtudagskvöldið á Vitanum og þar var stemningin ósvikin. Góður matur var reiddur fram, Martha Hermannsdóttir, fyrirliði liðsins, sagði frá ferðinni til Kósóvó og trúbadorinn Rúnar Eff tryllti lýðinn, svo eitthvað sé nefnt!

Egill Bjarni Friðjónsson var á staðnum með myndavélina og sendi Akureyri.net meðfylgjandi myndir.