Fara í efni
Þór

Fjölmennt Bombumót píludeildar Þórs

Píludeild Þórs hélt Bombumót í fyrradag þar sem 38 lið tóku þátt í tvímenningskeppni; þátttakendur því 76 en mótið gekk frábærlega þrátt fyrir fjöldann, sem sýnir „að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ eins og segir á Facebook síðu deildarinnar.

Píluíþróttin nýtur sívaxandi vinsælda á Akureyri sem annars staðar, segir Davíð Örn Oddson, formaður píludeildar Þórs, en deildin hefur komið sér upp glæsilegri aðstöðu í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu.

Það voru Viðar Valdimarsson og Freyr Hólm sem sigruðu í Bombumótinu og hlutu skottertur frá Björgunarsveitinni Súlum að launum.

Um mótið segir á heimasíðu Þórs:

Liðunum var skipt í sex riðla og fóru tvö efstu lið úr hverjum riðli áfram í 16 liða úrslit ásamt fjórum liðum með bestan árangur í 3. sæti. Þeim liðum sem komust ekki í 16 liða úrslitin bauðst að spila um svokallaðan forsetabikar og þáðu 18 lið það boð.

Í undanúrslitum A-keppninnar mættust annars vegar Karl Ólafur/Birgir Þór og Garðar Gísla/Óskar Páll og hins vegar Viðar/Freyr Hólm og Valþór Atli/Agnar Bjarni. Garðar Gísli og Óskar unnu sína viðureign, sem og Viðar og Freyr Hólm. Úrslitaviðureignin var jöfn og spennandi en á endanum voru það Viðar Valdimarsson og Freyr Hólm sem sigruðu 4-3 í leik þar sem bæði lið fengu færi á að klára leikinn. Óskar Jónasson og Halla Soffía unnu forsetabikarinn eftir úrslitaviðureign við Jason Wright og Örvar Elíasson.

Sá þátttakandi sem fyrstur skoraði 180 í 16 liða úrslitunum - hæsta skor sem hægt er að ná með þremur pílum - fékk sérstök verðlaun og var það hinn ungi Sigurður Þórisson sem nældi í þau í fyrsta leik. Nafni hans, Sigurður Fannar Stefánsson, vann sams konar verðlaun í keppni um forsetabikarinn, fyrstur til að skora 180.

Fyrir þau sem ekki eru kunnug pílukasti þá þarf að hitta öllum þremur pílunum í lítinn reit sem er hluti af 20 stiga reitnum til að skora 180, en þessi litli reitur gefur þrefalt, semsagt 60+60+60, og er sá reitur sem píluspilarar reyna oftast við í venjulegum leik.

Freyr Hólm og Viðar Valdimarsson, sigurvegarar Bombumótsins.