Fara í efni
Þór

Fimm frá Þór/KA á stórmótum erlendis

Þjóðirnar átta sem eru á lokamóti EM U19 í knattspyrnu í Belgíu.

Þessa dagana eru fimm leikmenn frá Þór/KA erlendis að búa sig undir þátttöku í stórmótum. Landslið Íslands U19 er í Belgíu þar sem stelpurnar okkar eru á meðal sjö annarra þjóða sem keppa á lokamóti EM U19. Átta lið, tveir riðlar, einn bikar. Þrjár frá Þór/KA eru í landsliðshópnum, þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir. Kimberley Dóra kom inn í hópinn með mjög litlum fyrirvara. Hún var stödd á æfingu með 2. flokki U20 hjá Þór/KA síðdegis á föstudag þegar kallið kom frá landsliðsþjálfaranum, Margréti Magnúsdóttur. Hún náði flugi suður á föstudagskvöld og flaug svo út með liðinu eldsnemma á laugardagsmorguninn. Ísfold Marý og Jakobína hafa verið fastamenn í liðinu alla undankeppnina. 

Fyrsti leikur íslenska liðsins á EM U19 er á morgun, þriðjudaginn 18. júlí. Ísland leikur í B-riðli ásamt Frakklandi, Spáni og Tékklandi, en í hinum riðlinum eru Austurríki, Belgía, Holland og Þýskaland. Tvö efstu liðin úr hvorum riðli fara áfram í undanúrslit.

Leikir Íslands:

  • Þriðjudagur 18. júlí kl. 18:30: Ísland – Spánn
  • Föstudagur 21. Júlí kl. 15:30: Ísland – Tékkland
  • Mánudagur 24. Júlí kl. 18:30: Ísland – Frakkland
  • Leikir í undanúrslitum eru 26. júlí og úrslitaleikur 30. júlí.

Leikir íslenska liðsins verða sýndir beint á Rúv 2.

Frumraun Filippseyinga á HM

Á sama tíma eru tvær af erlendu knattspyrnukonunum í Þór/KA, Dominique Randle og Tahnai Annis, staddar hinum megin á hnettinum, á Nýja-Sjálandi, þar sem þær spila með landsliði Filippseyja í frumraun Filippseyinga á lokamóti HM. Tahnai er fyrirliði filippseyska landsliðsins.


Tahnai Annis í leik með landsliði Filippseyja. Mynd: Fifa.com.

Filippseyjar eru í riðli með Nýja-Sjálandi, Noregi og Sviss. 

  • 21. júlí kl. 05:00: Filippseyjar – Sviss
  • 25. Júlí kl. 05:30: Filippseyjar – Nýja-Sjáland
  • 30. júlí kl. 07:00: Filippseyjar – Noregur

Allir leikir mótsins verða sýndir á Rúv og Rúv2, þar á meðal leikir Filippseyja.