Fara í efni
Þór

Fengu fjórar milljónir eftir kvennakvöld

Fulltrúar liðanna fjögurra, frá vinstri: Sandra María Jessen, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs/KA, Jóna Margrét Arnarsdóttir, fyrirliði blakliðs KA, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, fyrirliði handboltaliðs KA/Þórs og Vaka Bergrún Jónsdóttir, leikmaður körfuboltaliðs Þórs.

Afrakstur vel heppnaðs kvennakvölds á Akureyri í vor var í gær afhentur fulltrúum fjögurra íþróttaliða í bænum. Kvöldið var haldið til styrktar handboltaliði KA/Þórs, knattspyrnuliði Þórs/KA, blakliði KA og körfuboltaliði Þórs og fékk hvert og eitt afhenta eina milljón króna.

Kvennakvöldið var haldið í Sjallanum 20. maí. Það „heppnaðist gríðarlega vel og fór fram úr okkar björtustu vonum. Með þessu viljum við bæði styrkja kvennadeildirnar ásamt því að vekja meira athygli á kvennaíþróttum í bænum sem hafa verið að standa síg gríðarlega vel undanfarin ár,“ segir í tilkynningu frá kvennakvöldsnefndinni.

Fulltrúum liðanna fjögurra, leikmanni og stjórnarfólki, var boðið í Lystigarðinn í gær, föstudag, þar sem allir voru í sólskinsskapi, bæði vegna þess að hún skein skært, blessunin, og vegna vel heppnaðs styrktarkvölds.

„Við í kvennakvöldsnefndinni buðum knattspyrnudeild Þór/KA, handknattleiksdeild KA/Þórs, blakdeild KA og körfuknattleiksdeild Þórs að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Nefndin sá um viðburðinn og tóku fulltrúar frá öllum deildum þátt í undirbúningi og vinnu á sjálfu kvöldinu,“ segir í tilkynningunni. Í kvennakvöldsnefndinni eru Linda Guðmundsdóttir, Elsa Björg Pétursdóttir, Eva Björk Halldórsdóttir, Bjarney Sigurðardóttir, Þóra Pétursdóttir, Anna Kristín Magnúsdóttir og Elma Eysteinsdóttir.

Nánar hér og fleiri myndir.