Fara í efni
Þór

Fellur vel að ýmsu í íþróttastefnunni

Ein myndanna sem Geir Hólmarsson lét útbúa til að sýna þær hugmyndir sem hann setti fram í grein gærdagsins.

„Ég fagna því alltaf þegar bæjarbúar láta sig íþróttamálin varða, enda er Akureyri íþróttabær og við eigum að horfa metnaðarfull til framtíðar hvað varðar uppbyggingu íþróttamannvirkja. Það er augljóst að Geir kastar þessum hugmyndum ekki fram í hálfkæringi, hann er búinn að leggja mikla vinnu í að skoða málið og fyrir það á hann hrós skilið,“ sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar, þegar Akureyri.net bar undir hann grein Geirs Hólmarssonar sem birtist hér á vefnum í gær.

„Hugmyndir Geirs falla vel að ýmsu í íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA sem samþykkt var árið 2018. Í stefnunni er talað um Akureyri sem heilsueflandi samfélag og að íþróttir verði gerðar að sjálfsögðum lífsstíl bæjarbúa. Þar er lýst yfir vilja til að gera almenningsíþróttum hátt undir höfði, ásamt því sem sérstaklega er talað um eldri borgara og „að þeir verði virkir þátttakendur í íþróttastarfi félaga innan ÍBA bæði sem iðkendur og þátttakendur í sjálfboðaliðastarfi“ svo vitnað sé orðrétt í stefnuna. Mér finnst mjög mikilvægt að þeir sem eldri eru fái aðstöðu og tækifæri til að stunda hreyfingu, enda fer þessi hópur sístækkandi. Það er þó þannig í dag að nokkrir tugir af eldra fólki er að nýta sér bæði Bogann og hlaupabrautirnar á Þórsvelli á morgnanna alla virka daga til iðka sína hreyfingu, sem er frábært. Mikil vakning hefur orðið í þessum efnum og má þar nefna hið góða starf sem unnið er hjá Janusi Heilsueflingu fyrir sunnan,“ segir Geir Kristinn.

Mannvirki fullnýtt

Formaður ÍBA hélt áfram: „Þá er einn af rauðu þráðum stefnunnar sá að á Akureyri verði starfrækt færri, stærri og faglegri íþróttafélög og í mínum huga er lykillinn sá að minni félögin og greinarnar í bænum fái viðunandi aðstöðu. Sé það gerlegt að byggja upp slíka aðstöðu t.d. á félagssvæði Þórs og KA þá muni það leiða af sér sameiningar íþróttafélaga. Í dag er staðan sú að nokkrar íþróttagreinar eiga það á hættu að leggjast af í bænum vegna aðstöðuleysis og má þar nefna keilu, bogfimi, taekwondo og kraftlyftingar, auk þess sem Karatefélagið er í leiguhúsnæði hjá þriðja aðila og Sundfélagið Óðinn æfir við úreltar aðstæður.

Við búum almennt vel á Akureyri þegar kemur að íþróttamannvirkjum en staðreyndin er engu að síður sú að öll mannvirki eru nýtt til fullnustu og rúmlega það. Við þurfum að halda áfram að byggja upp íþróttamannvirki á Akureyri og gera það með skýra framtíðarsýn í huga. Í september í fyrra samþykkti bæjarstjórn skýrslu þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum og í mínum huga er mikilvægt hafa slíka stefnu til að vinna eftir í þessum efnum, þó að íþróttafélög bæjarins hafi vissulega verið misánægð með tillögur starfshópsins. Við eigum að byggja upp íþróttakjarna, líkt og hugmynd Geirs gengur út á, í stað þess að dreifa íþróttamannvirkjum vítt og breytt um bæinn eins og gert hefur verið í gegnum tíðina.“

Formaður ÍBA segir hugmyndir Geirs Hólmarssonar leysa ýmis vandamál „en þó fyrst og fremst aðstöðuleysi Þórsara, sem þurfa að iðka sínar greinar vítt og breytt um bæinn í dag. Það að KA fái Íþróttahöllina til afnota myndi hjálpa félaginu mikið í sínum vaxtarverkjum en það breytir ekki þeirri staðreynd að einnig þarf að byggja upp á KA svæðinu. Þá má ekki gleyma að það eru fleiri félög en Þór og KA sem nýta Íþróttahöllina í dag,“ sagði Geir Kristinn.

Smelltu hér til að lesa grein Geirs Hólmarssonar