Fara í efni
Þór

Fannar ristarbrotinn og verður lengi frá

Fannar Daði Malmquist Gíslasonf hefur verið óheppinn með meiðsli í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fannar Daði Malmquist Gíslason knattspyrnumaður í Þór ristarbrotnaði á æfingu á fimmtudaginn. Hann var því fjarri góðu gamni þegar Þórsarar fengu Þróttara í heimsókn í gær í Lengjudeild Íslandsmótsins og verður lengi frá.

Meiðsli Fannars eru mikil blóðtaka fyrir Þórsliðið því þessi kraftmikli sóknarmaður lék vel þegar heilsan leyfði í sumar, en hefur reyndar verið ótrúlega óheppinn með meiðsli og aðeins tekið þátt í sex af 13 leikjum í deildinni.

Gert er ráð fyrir að Fannar verði með fótinn í spelku næstu sex vikurnar, ekki er ljóst hvenær hann verður leikfær á ný en þó er næsta víst að Fannar missir af sjö deildarleikjum. Hann gæti hugsanlega náð tveimur þeim síðustu, sem fram fara í september, og síðan umspilsleikjum um sæti í Bestu deildinni, verði Þórsarar í fimmta sæti eða ofar að lokinni hefðbundinni tvöfaldri umferð Lengjudeildarinnar.