Fara í efni
Þór

Fallegur dagur Bríetar Fjólu og fjölskyldu

Bríet Fjóla Bjarnadóttir í leiknum gegn Breiðabliki í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bríet Fjóla Bjarnadóttir kom í fyrsta skipti við sögu hjá Þór/KA í Bestu deildinni í knattspyrnu þegar hún kom inn á sem varamaður undir lok sigurleiksins (3:2) gegn Breiðabliki í dag. Bríet er aðeins 13 ára gömul, fædd í janúar árið 2010 og langyngst allra sem leikið hafa í deildinni í sumar.

Bríet Fjóla er gríðarlega efnileg knattspyrnustúlka. Hún er í 4. aldursflokki KA en hefur einnig leikið með 3. flokki Þórs/KA og 2. flokki Þórs/KA/Völsungs í sumar.

Til stóð að Bríet Fjóla fengi að spreyta sig síðustu mínúturnar í leik í Bestu deildinni fyrr í sumar, eftir að hafa hitað upp beið hún drjúga stund við hliðarlínuna en boltinn fór aldrei út af vellinum áður en dómarinn flautaði til leiksloka!

Minningarleikur um Guðmund afa

Segja má að fallegt hafi verið að Bríet Fjóla kæmi fyrst við sögu í dag því þó að um deildarleik væri að ræða var þetta minningarleikur um föðurafa hennar, Guðmund Sigurbjörnsson, fyrrverandi formanns Íþróttafélagsins Þórs. Guðmundur féll frá langt fyrir aldur fram árið 1998, fyrir aldarfjórðungi, aðeins 49 ára að aldri og hefur fjölskylda hans staðið fyrir minningarleikjum reglulega síðan. 

Minningarsjóður var stofnaður um Guðmund á sínum tíma og í hálfleik í dag afhentu synir hans, Einar Már og Bjarni Freyr, faðir Bríetar Fjólu, kvennaráði Þórs/KA 750.000 króna styrk.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður kvennaráðs Þórs/KA, Bjarni Freyr Guðmundsson og Einar Már Guðmundsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, og Bríet Fjóla (15) eftir leikinn í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson