Fara í efni
Þór

Eva Wium valin í A-landsliðið í körfubolta

Eva Wium Elíasdóttir í leik með U20 ára landsliðinu.

Eva Wium Elíasdóttir, leikmaður körfuknattleiksliðs Þórs, hefur verið valin í A-landsliðshópinn fyrir æfingaleiki gegn Svíum á næstu dögum.

Eva hefur verið lykilleikmaður í liði Þórs síðan félagið endurvakti kvennaliðið sitt í körfuboltanum og átti stóran þátt í því að Þórsliðið tryggði sér sæti í Subway-deildinni á komandi tímabili eftir nær fimmtíu ára fjarveru úr efstu deild. Hún hefur verið á kafi í körfuboltanum í sumar og spilaði með U20 ára landsliðinu bæði á Norðurlandamóti og Evrópumóti. Akureyri.net sagði einmitt frá því á dögunum þegar Eva sendi út ákall um stuðning vegna þess hve mikill tími, margir tapaðir vinnudagar og mikill kostnaður fylgdi þátttöku í landsliðsverkefnum, ásamt umfjöllun um fjarveru og kostnað ungs landsliðsfólks í körfubolta á vorin og sumrin sérstaklega.

Þjálfari A-landsliðs kvenna er Benedikt Guðmundsson, fyrrum þjálfari karlaliðs Þórs. Landsliðið mætir Svíum í tveimur æfingaleikjum ytra á morgun og laugardag, en leikirnir eru liður í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni EM 2025 sem hefst í nóvember.

Það má því segja að megnið af sumrinu fari í körfubolta hjá Evu eins og öðru landsliðsfólki. Það verður spennandi að fylgjast með henni með A-landsliðinu í þessu verkefni sem fram undan er og svo innan tíðar þegar Þórsliðið mætir til leiks í Subway-deildinni, efstu deild Íslandsmótsins.