Fara í efni
Þór

Eva Wium með ákall um stuðning

Eva Wium Elíasdóttir í leik með U20 landsliði Íslands í körfuknattleik.

Eva Wium Elíasdóttir, körfuknattleikskona úr Þór, er þessa dagana stödd með U20 landsliði Íslands í Rúmeníu þar sem liðið mætir Norðmönnum í átta liða úrslitum B-deildar Evrópumótsins kl. 12:30 í dag. Mikill heiður að vera valin, segir Eva, en mikill kostnaður sem fylgir því að taka þátt í landsliðsverkefnum.

Eva birtir svo einfaldlega bankaupplýsingar og kennitölu og tekur þar við frjálsum framlögum – með fyrirfram þökkum – vegna þessa verkefnis sem hún tekur nú þátt í.

Reikningur: 0162-26-002440
Kennitala: 260404-3690
 

Kostnaðurinn er dragbítur

Akureyri.net fjallaði um kostnað landsliðsfólks, bæði í A-landsliðum og yngri landsliðum, fyrr í sumar, meðal annars í tengslum við fjarveru KA-kvenna úr landsliðinu í blaki og svo söfnun sem KKÍ stóð fyrir undir kjörorðunum Þinn styrkur, þeirra styrkur fyrir yngri landsliðin í körfuknattleik. 

Eva er önnur tveggja úr körfuknattleiksliði Þórs sem varið hefur miklum tíma og fjármunum vegna æfinga og keppnisferða með U20 landsliði Íslands í körfuknattleik. Þær Eva og Marín Lind Ágústsdóttir voru báðar með U20 landsliðinu á Norðurlandamótinu fyrr í sumar, en Marín Lind gaf ekki kost á sér fyrir þátttöku liðsins á EM. 


U20 landsliðið sem vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu. Eva er töffarinn fremst fyrir miðju og Marín Lind á ská fyrir aftan hana.

Eva lætur ekkert stöðva sig og og tekur ótrauð þátt í verkefnum með landsliðinu þrátt fyrir mikinn kostnað, vinnutap og tíma fjarri heimahögunum vegna æfinga og keppnisferða. Í gæri birti hún stuttan pistil á Facebook-síðu sinni með ákalli um stuðning, eins og reyndar aðrar í hópnum og fleiri ungmennalandsliðum í körfuknattleik og öðrum íþróttum gera reglulega. Án þess að Akureyri.net hafi rannsakað það sérstaklega er klárt að fjölmörg dæmi er um ungt íþróttafólk sem hefur þurft að afþakka sæti í landsliðshópum í hinum ýmsu íþróttum vegna kostnaðar sem því fylgir. 

Mikill heiður að vera valin

„Það var mér mikill heiður þegar ég var valin í lokahóp U-20 þetta sumarið,“ skrifar Eva í pistli sem hún hefur deilt á Facebook með ákalli til vina, fjölskyldu og fyrirtækjaeigenda um stuðning, eins og hún orðar það. „Þetta er kannski ekkert sérstaklega auðvelt fyrir landsbyggðartúttu eins og mig þar sem ég hef þurft að búa fyrir sunnan í allt sumar til að æfa þar með landsliðinu.“ Hún kveðst hafa verið heppin með vinnu og samastað syðra, vann hjá Höldi mestallan júnímánuð við að þrífa bíla. 

Eva og liðsfélagar hennar í U20 landsliðinu hafa átt gott keppnissumar, eins og hún orðar það. Liðið vann bronsverðlaun á Norðurlandamótinu og tekur þessa dagana þátt í Evrópumótinu sem haldið er í Rúmeníu. Liðið hefur nú tryggt sér sæti í átta liða úrslitum B-deildarinnar og mætir norska liðinu í dag.


U20 landsliðið sem tekur þátt í EM í Rúmeníu. Eva lengst til hægri í fremri röð. 

„Að vera partur af þessum hóp og taka þátt í svona verkefnum er eitthvað sem fer allt í reynslubankann og er þetta lið orðið mér mjög dýrmætt,“ skrifar Eva um upplifun sína í sumar, en ... „Því miður fylgir þessu bæði mikill kostnaður og vinnutap, utanlandsferðirnar kosta hvern og einn leikmann 575.436 krónur og því leita ég nú eftir styrkjum og fjárframlögum til að ná að létta undir.“

Íslenska liðið hefur nú þegar sigrað lið Austurríkis, Slóvakíu og Búlgaríu og mætir Norðmönnum í dag kl. 12:30.