Fara í efni
Þór

Erum dálítið óskrifað blað – sem er fínt

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar hefja leik í Lengjudeildinni í knattspyrnu í dag þegar þeir taka á móti Kórdrengjum í Boganum. Leikurinn hefst klukkan 18.00.

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, segir að allir leikmenn séu heilir og tilbúnir í slaginn nema hvað Ásgeir Marinó Baldvinsson glímir við meiðsli og verður væntanlega frá næstu tvær vikur.

„Það hafa orðið rosalega miklar breytingar á liðinu frá því í fyrra, breytingar sem hófust reyndar um mitt sumar þegar liðið missti menn úr framlínunni; Alvaro [Montejo] og Jakob Snær [Árnason] fóru og Sölvi [Sverrisson] meiddist,“ sagði Þorlákur við Akureyri.net, spurður um liðið.

Við hverju mega stuðningsmenn búast í sumar? Hvernig verður leikstíllinn?

„Það er góð spurning! Fólk mun sjá ákveðinn leikstíl, við viljum pressa önnur lið, okkur líður vel þannig, og við viljum spila boltanum með jörðinni. Ég er viss um að tæknilega séð erum við með eitt besta lið í deildinni og það ætti að sjást á leik liðsins,“ segir Þorlákur.

„Við viljum spila það sem við teljum góðan fótbolta. Það eru margir ungir leikmenn að koma upp og hópurinn er mjög ungur. Því fylgja svolitlar sveiflur, hingað til er ég ánægður með strákana en við verðum bara að sjá til hvað verður þegar við verðum komnir út í alvöruna. Íslandsmótið sjálft er allt annað en undirbúningstímabil.“

Tæknilega góðir strákar

„Ég hafði svipaða mynd af Þór og aðrir sunnanmenn; af liði sem er byggt upp á miklum hávaða og baráttu og djöfulgangi!“ segir Þorlákur og hlær, þegar hann er spurður um það. Hann var ráðinn þjálfari Þórs síðasta haust. „En það hefur komið mér á óvart hve karaktereinkenni liðsins eru öðruvísi, enda erum við að fá upp leikmenn sem eru tæknilega góðir. Það er frekar að manni finnist stundum skorta á djöfulganginn, hávaðann og lætin! En liðið fer auðvitað eftir þeim leikmönnum sem þar eru hverju sinni og vonandi náum við að blanda þessu saman; verðum baráttuglaðir og tæknilega góðir.“

Setjið þið ykkur eitthvert sérstakt markmið fyrir sumarið?

„Við höldum því innan hópsins en í stuttu máli förum við auðvitað í hvern einasta leik til að vinna hann, hvort sem það er á móti liði úr efstu deild eða einhverju öðru. Það er því markmiðið í kvöld og við hugsum ekki lengra í bili.“

Er ekki Lengjudeildin hörkudeild?

„Jú, þetta er alltaf hörkudeild. Hún ber keim af því að liðin á höfuðborgarsvæðinu sækja sér slatta af leikmönnum sem detta úr hópi hjá liðunum í efstu deildinni. Það er offramboð á leikmönnum á höfuðborgarsvæðinu og töluverðar breytingar hafa orðið á liðunum í deildinni. Fæðukeðjan á Norðurlandi er allt öðruvísi; Þór og KA framleiða leikmenn fyrir lið í 2. 3. og 4. deild en leikmenn úr efstu deild fara ekki í næst efstu deildina. Þegar okkur vantar leikmenn í ákveðnar stöður þurfum við að leita út fyrir landsteinana. Við erum dálítið einangraðir.“

Hvað geturðu sagt mér um mótherjann í dag?

„Ég held að Kórdrengir verði svipaðir og í fyrrasumar. Þá voru þeir með eitt besta lið í deildinni, reynslumikið lið sem á að vera með eina sterkustu varnarlínuna í deildinni en liðið er með veikleika eins og önnur lið og við ætlum að nýta okkur það.“

Því hefur verið spáð að Þórsliðið verði um miðja deild. Telur Þorlákur það raunhæfa spá?

„Ég veit það ekki. Þórsliðið er sennilega það lið í deildinni sem hvað erfiðast er að rýna í. Við höfum sýnt mjög góða frammistöðu gegn góðum liðum í vetur en höfum líka dottið niður á lágt plan. Spáin virðist byggja á því að það býr mikið í liðinu en allir vita að breytingarnar eru miklar. Við erum dálítið óskrifað blað, sem er í sjálfu sér bara fínt.“

  • Hægt verður að fylgjast með leik Þórs og Kórdrengja í beinni útsendingu á lengjudeildin.is