Fara í efni
Þór

Enn koma Þórsarar tómhentir af útivelli

Þorlákur Árnason þjálfari Þórs. Hans menn eiga í miklum erfiðleikum á útivelli í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 4:0 fyrir ÍA á Akranesi í kvöld í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Þórsarar eru því enn með 13 stig og eru í sjötta sæti að loknum níu leikjum. Skagamenn skutust upp í þriðja sæti, eru komnir með 17 stig.

Þar með hafa Þórsarar tapað fjórum af fimm leikjum á útivelli í sumar. Þeir gerðu 2:2 jafntefli við Njarðvík í síðustu umferð en markatalan í hinum fjórum leikjunum er 0: 14. Þórsliðið hefur unnið alla heimaleikina en á einhverra hluta vegna mjög erfitt með að ná sér á strik annars staðar. Ótrúlegt, en satt.

Akurnesingar byrjuðu með látum í kvöld og gerðu harða hríð að Þórsmarkinu. Þeir sóttu meira allan fyrri hálfleikinn en náðu ekki að skora fyrr en á síðustu mínútu; Haukur Andri Haraldsson braut þá ísinn með glæsilegu marki frá vítateigslínu. Hann þrumaði boltanum efst í hægra hornið, óverjandi fyrir Aron Birki markvörð Þórs.

Skagamenn bætti marki við þegar korter var búið af seinni hálfleik. Skömmu síðar kom Þórsarinn Alexander Már Þorláksson boltanum í mark ÍA en dómarinn taldi að brotið hefði verið á markverðinum í aðdraganda þess og markið stóð því ekki. Þriðja mark ÍA kom fljótlega eftir þetta og það fjórða á síðustu andartökum leiksins.

Mjög sanngjarn sigur ÍA og Þórsarar verða að gyrða sig í brók ætli þeir sér einhverja hluti í deildinni í sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna