Fara í efni
Þór

Dúxuðu og drógu hvor aðra áfram

Vinkonurnar, fótboltafélagaranir, námsfélagarnir og dúxarnir Helga Viðarsdóttir semidúx og María Björk Friðriksdóttir dúx Menntaskólans á Akureyri 2023. Mynd: Viðar Sigurjónsson

María Björk Friðriksdóttir, dúx Menntaskólans á Akureyri, og Helga Viðarsdóttir semidúx, fylgdust að í náminu en voru þó aldrei í sama bekk í bekkjakerfi MA. Þær luku báðar stúdentsprófi af heilbrigðisbraut MA og útskrifuðust með glæsibrag laugardaginn 17. júní. Þær hafa ekki aðeins fylgst að í náminu undanfarin þrjú ár því þær hafa æft og spilað saman fótbolta með yngri flokkum Þórs og eru núna saman í 2. flokki undir merkjum Þórs/KA/Völsungs. Þær voru líka saman í grunnskóla, en þó ekki saman í bekk, urðu fyrst góðar vinkunur í 7. eða 8. bekk þó þær hafi þekkst í gegnum allt grunnskólanámið.

Þær tóku menntaskólanámið ekki alveg allt í sameiningu, út af dálitlu. „Nei, ekki alveg. Fyrsta árið var covid-ár og þá vorum við bara heima. Mér hefur alltaf gengið vel í skóla, en ég átti náttúrlega aldrei von á einhverju svona,“ segir María. Hún segist hafa kviðið fyrir menntaskólanáminu, hafi heyrt að bestu nemendurnir færu alveg niður í 5-6 í einkunnum. „Ég átti engan veginn von á þessu, vissi ekki hvað dúx var einu sinni.“ Helga bætir við: „Hjá mér persónulega var þetta aldrei eitthvað sem ég ætlaði sérstaklega að gera.“

Ekki með augastað á dúxinum

Þær segjast ekki hafa verið með augastað á dúxinum sérstaklega þegar þær voru að hefja menntaskólanámið, frekar bara að vera duglegar að læra og standa sig vel í náminu því báðar eru með hugann við háskólanám. Þær voru báðar á heilbrigðisbraut og samvinna þeirra í náminu byrjaði fyrir alvöru í 2. bekk, en aðallega þá bara fyrir próf því þær lentu aldrei saman í bekk í MA. Nemendur geta óskað eftir því að vera með öðrum nemanda í bekk, en báðar eiga þær „aðra bestu vinkonu“ sem fylgdi hvorri um sig í gegnum bekkjakerfið. Þær voru alltaf að vonast til að lenda síðan allar saman í bekk, en það gerðist ekki. 

Helga og María Björk hafa fylgst að í fótboltanum, ekki síður en náminu. Helga byrjaði að æfa í 7. flokki og María í 6. flokki, báðar með Þór, og síðan með Þór/KA. María á líka að baki fimm meistaraflokksleiki með Hömrunum. Hér eru þær í nýju Þór/KA-treyjunum klárar í helgarferð suður með 2. flokki um komandi helgi. 

 

Þær dúxuðu báðar á einni önn, fengu sömu einkunn og hugsuðu sem svo að þær gætu alveg gert þetta, en voru samt efins því þær sáu hærri meðaleinkunnir hjá dúxum í öðrum skólum. Bjuggust frekar við því að einhver yrði með betri einkunnir en þær sjálfar.

„Við byrjuðum aðallega að læra saman í 2. bekk, tókum þarna eina prófatíð sem við lærðum fyrir öll prófin saman enda er það ein besta prófatíð sem ég hef gengið í gegnum. Þar náðum við að hjálpa hvor annarri allan tímann,“ segir María.

Þegar upp var staðið endaði María með örlítið hærri meðaleinkunn. María var reyndar með hæstu einkunn í 3. bekk, 9,8. Aðeins munaði 0,02 á meðaleinkunn þeirra eftir þessi þrjú ár. María var með 9,56 og Helga 9,54. María telur sig vita hvar munurinn liggi. „Ég held kannski að það sé af því að Helga gat ekki tekið alveg þátt í íþróttum, ég held að þetta liggi þar,“ segir María.

Með þennan litla mun liggur beint við að spyrja hvort Helga sé tapsár. „Nei, alls ekki, ég er bara mjög stolt af Maríu. Hún á þetta svo sannarlega skilið,“ segir Helga. Þær hlæja líka báðar að því þegar María bætir við: „Ef ég á að segja alveg eins og er þá fékk Helga betri verðlaun. Helga fékk menntaverðlaun frá HR og ég fékk einhverja ferðatösku og efnafræðibók,“ segir María hlæjandi.

Af vef menntaskólans:

  • Helga Viðarsdóttir: Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í frönsku. Helga fékk lika Raungreinaverðlaun HR fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum. Helga er semidúx skólans.
  • María Björk Friðriksdóttir: Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði og líffræði. María Björk er dúx skólans og fékk gulluglu skólans

Mjög ólíkar námsaðferðir

Eruð þið mjög skipulagðar og með svipaðar aðferðir í því að læra fyrir próf?

„Við erum með mjög ólíkar aðferðir til að læra undir próf,“ segir Helga og þær skellihlæja báðar þegar þær fá þessa spurningu. „Við erum bara sitthvor manneskjan þar,“ segir María. „Ég byrja svona fjórum dögum fyrir próf, set upp í töflu, hvað var gert í vikunni og hvað væri fram undan í næstu viku, skipulagði þetta allt frá a-ö. Svo hringdi ég kannski í Helgu tveimur dögum fyrir próf: Eigum við kannski að fara yfir þetta saman? Já, heyrðu, ég er bara ekki byrjuð sagði Helga þá.“ Helga segist vinna betur undir pressu og gangi best þegar hún er orðin stressuð rétt fyrir próf.

María Björk Friðriksdóttir dúx MA með brautskráningarskírteinið. Ljósmynd: Linda Ólafsdóttir

En þær segjast hafa dregið hvor aðra áfram og geta hjálpað hvor annarri með ýmsa hluti. „Ég held að Helga hafi hjálpað mér eins og í eðlisfræði og svona, að sjá hana í stærra samhengi. Ég átti svo mikið til að læra þetta bara, skilja þetta, akkúrat þetta dæmi, en svo þegar við komum saman þá náði ég að skilja, já, þetta er svona af því að hitt er svona, og þá sáum við heildarmyndina saman," segir María „Við skildum þá sitthvorn hlutinn,“ bætir Helga við og María heldur áfram: „Já, við vorum góðar í sitthvorum hlutnum og þá náðum við að hjálpa hvor annarri. Helga bætir líka við að það hafi verið ágætt þegar María var búin með ákveðna hluti og geta þá leitað til hennar, því sjálf hafi hún verið á síðustu stundu.

Læknanámið heillar

Þær voru báðar á heilbrigðissviði og því liggur beint við að spyrja um framhaldið. Verða þær orðnar fullmenntaðir læknar eftir nokkur ár? Kannski búnar að sækja um nú þegar? Svarið er eins hjá báðum: Ætla að taka eitt ár í pásu, vinna á leikskóla. En læknanámið er „alveg pæling“ hjá báðum.

María segist þó hafa verið efins um læknanámið því hún þjáist af prófkvíða. „Ég var búin að sjá fyrir mér að ég myndi fara í „burnout“ ef ég færi í lækninn, búin að heyra hræðilega hluti um námið. En svo er mér alltaf að lítast betur á Slóvakíunámið. Þá ertu bara með 8-10 í bekk, ódýrt að leigja þarna, bara 40 þúsund á mánuði. Ég held að ég myndi ekki fara í lækninn hér,“ segir María.

Helga er líka með hugann við Slóvakíu. „Ég hef verið að pæla í því. Við fengum kynningu í skólanum. Stefnan mín var alltaf þangað, í læknanám í Slóvakíu. En núna er HR aðeins að toga í mig varðandi nám þar,“ segir Helga. Hluti af verðlaunum hennar var að fá niðurgreidda fyrstu önnina í HR. Þar gæti heilbrigðisverkfræðin freistað hennar. „En samt held ég að læknanámið sé númer eitt,“ segir Helga og María samsinnir því.

Einföld ráð til ungu Helgu og Maríu

Hvað ef þið mynduð núna hitta Maríu og Helgu sem væru að byrja í 1. bekk?

„Ég myndi segja þeim að slaka á,“ segir María. „Það þarf ekki að leggja svona mikið á sig þó það sé ógeðslega gaman eftir á. Og vera meira í félagslífinu,“ segir María og Helga tekur í sama streng. „Já, ég myndi segja það, reyna að mæta á sem flesta viðburði skólans,“ segir Helga.

Voru þær þá oft að fórna miklu fyrir námið, eins og félagslífinu, fótboltanum eða öðru? „Nei, en ég fórnaði alveg einhverju, ég mætti ekki á alveg allar kvöldvökur og ekki alveg allar fótboltaæfingar, en það er líka af því að ég vara með svo mikinn prófkvíða að mér fannst ég þurfa að læra svona mikið til að ná yfir höfuð bara 8 á prófinu, en svo sá ég það alltaf meira og meira að ég væri kannski að læra frekar mikið ef ég var alltaf að ná 9,8 eða 9,5 á prófunum, þá gæti ég alveg slakað á. Ég náði því dálítið á þriðja ári, þá var bara eins og ég væri ekki með prófkvíða lengur.“

María kveðst hafa fengið aðstoð við prófkvíðanum hjá námsráðgjafa og sálfræðingi. „Ég fann það alveg á 3. ári að ég sleppti varla fótboltaæfingu nema ef það kom eitthvað sérstakt upp á og fór á eiginlega allar kvöldvökur. Maður getur alveg gert bæði, verið í félagslífinu og gengið vel. Það er bara ekkert mál,“ segir María og Helga tekur við: „Það er minnsta mál. Ég missti svolítið úr bara út af skipulagsleysi, af því að ég byrjaði svo seint, en það hefði verið minnsta mál að gera bæði,“ segir Helga. Ég myndi hvetja ungu Maríu og Helgu til að vera ennþá meira með í félagslífinu, þó svo þær hafi báðar verið mjög duglegar,“ segir María.

Helga kemur líka með mjög góðan punkt varðandi námið og það að ná árangri: „Og svo bara ef maður fylgist með í tímum þá er maður kominn langleiðina…“ segir Helga. „Þá ertu komin upp í sjö,“ bætir María við. Þetta snýst sem sagt fyrst og fremst um að nýta tímann vel.