Fara í efni
Þór

Dúkur og hiti sanna gildi sitt rækilega

Bjarki Þór Viðarsson, fyrirliði Þórsliðsins í fótbolta og starfsmaður félagsins, á iðagrænum og fallegum vellinum. í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Grasvöllur íþróttafélagsins Þórs kemur mjög vel undan vetri; er orðinn iðagrænn og fallegur – ekki bara fjarska-fallegur, eins og lifandi knattspyrnuvellir eru gjarnan á þessum árstíma.

Nýr dúkur, svokallaður heildúkur, var keyptur í vetur og lagður á völlinn í fyrsta sinn í byrjun apríl. Hitalögn er undir grasinu og segir Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, þetta tvennt skipta sköpum.

„Dúkurinn einn og sér er mjög mikilvægur og sama má segja um hitann. Þegar þetta tvennt kemur saman verður útkoman frábær. Dúkurinn og hitinn hafa rækilega sannað gildi sitt,“ segir Reimar við Akureyri.net.

Ekki verður þó leikið á Þórsvellinum í bráð. „Við viljum passa vel upp á völlinn, ekki byrja of snemma þótt hann líti vel út því hann þarf að vera góður í allt sumar,“ segir framkvæmdastjórinn.

Fyrsti leikurinn á grasinu verður mánudaginn 15. maí, þegar kvennalið Þórs/KA og Breiðablik mætast í Bestu deildinni.

Fyrsti heimaleikur karlaliðs Þórs er laugardaginn 6. maí þegar Vestri kemur í heimsókn og hann verður innandyra, í Boganum.

Fyrsti deildarleikur karlaliðs Þórs á grasinu verður sunnudaginn 21. maí þegar Leiknir kemur í heimsókn. Fái Þórsarar heimaleik í bikarkeppninni fer hann fram 17., 18. eða 19. maí og verður þá vitaskuld á grasvellinum.

Fyrsti heimaleikur Þórs/KA verður 1. maí, næsta mánudag, gegn Selfossi. Ákveðið er að hann verður á heimavelli KA, Greifavellinum sunnan við KA-heimilið.

Frétt Akureyri.net 5. apríl –  „Heildúkur“ lagður fyrsta sinni á Þórsvöllinn