Fara í efni
Þór

Daníel Andri þjálfar kvennalið Þórsara

Daníel Andri Halldórsson, til hægri, og Hjálmar Pálsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við Daníel Andra Halldórsson um að hann taki að sér þjálfun kvennaliðs Þórs og gildir samningurinn til tveggja ára.

Í mars síðastliðnum tilkynnti körfuknattleiksdeild Þórs að félagið myndi tefla fram meistaraflokki kvenna á Íslandsmótinu á ný næsta vetur, eftir tveggja ára fjarveru. Daníel var í vetur yfirþjálfari yngri flokka og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Daníel Andri segir á heimasíðu Þórs að framundan séu spennandi tímar. Undanfarnar vikur hafi farið í almennan undirbúning og í að ræða við leikmenn sem hafi sýnt því áhuga að spila fyrir Þór. „Við munum mæta með spennandi lið til leiks í fyrstu deildinni. Það er hugur í fólki og við ætlum að vanda okkur og gera þetta vel og vera vel undirbúin þegar baráttan hefst í haust,“ segir hann.