Fara í efni
Þór

Dagur í atvinnumennsku – Matea og Einar best

Dagur Gautason er á leið frá KA og leikur erlendis næsta vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltamaðurinn Dagur Gautason, leikmaður KA, er á leið utan í atvinnumennsku. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins en ekki hvert för hornamannsins er heitið. Markvörðurinn Matea Lonac var kjörin besti leikmaður KA/Þórs í vetur og Einar Rafn Eiðsson besti leikmaður KA. 

Matea Lonac og Einar Rafn Eiðsson. Mynd af heimasíðu KA.

Breytingar eru framundan bæði hjá karlaliði KA og kvennaliði KA/Þórs og voru nokkrir mikilvægir einstaklingar heiðraðir fyrir þeirra framlag til handboltans, segir í frétt á heimasíðu félagsins.

Þar segir jafnframt:

  • Matea Lonac var kjörin besti leikmaður KA/Þórs á tímabilinu en Matea stóð fyrir sínu í rammanum eins og undanfarin ár. Hún var með eina bestu markvörsluna í deildinni og vel að því komin að vera besti leikmaður KA/Þór.
  • Einar Rafn Eiðsson var kjörinn besti leikmaður KA en Einar Rafn fór hamförum í vetur og varð markakóngur Olísdeildarinnar. Hann var í lykilhlutverki að tryggja ungu liði KA áframhaldandi veru í deild þeirra bestu og ansi vel að því að vera kjörinn besti leikmaður liðsins.
  • Ida Margrethe Hoberg var kjörin efnilegasti leikmaður KA/Þórs en þessi 19 ára gamla skytta sem gekk í raðir liðsins á miðju tímabili frá Danmörku kom eins og stormsveipur inn í liðið og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína.
  • Jens Bragi Bergþórsson var kjörinn efnilegasti leikmaður KA liðsins en þessi 16 ára gamli línumaður kom gríðarlega sterkur inn í lið meistaraflokks KA og sýndi og sannaði að hann er klár í baráttuna í deild þeirra bestu.
  • Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir var valin besti liðsfélaginn í KA/Þór en Kristín er gríðarlegur félagsmaður, er afar ósérhlífin og drífur liðsfélaga sína áfram í einu og öllu.
  • Hjá strákunum var Haraldur Bolli Heimisson valinn besti liðsfélaginn en Halli er klárlega klefakóngur liðsins og er auk þess afar duglegur að vinna í kringum liðið.
  • Andri Snær Stefánsson gaf út á dögunum að hann myndi ekki halda áfram þjálfun KA/Þórs eftir að hafa stýrt liðinu undanfarin þrjú ár og var hann heiðraður af stjórn liðsins.
  • Það verða einnig þjálfarabreytingar hjá strákunum og var Jónatani Magnússyni þökkuð góð störf með liðið undanfarin ár. Jonni er að fara í afar spennandi verkefni í Svíþjóð og tekur þar við liði Skövde, óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi.
  • Dagur Gautason mun yfirgefa KA liðið og tekur nú ansi spennandi skref og reynir fyrir sér í atvinnumennsku. Nánar um það skref á næstu dögum en Dagur átti frábæran vetur með KA liðinu og verður gaman að fylgjast með honum á næsta stigi ferilsins.
  • Færeyingarnir Nicholas Satchwell og Allan Norðberg eru að kveðja liðið en Allan var ekki viðstaddur lokahófið. Báðir hafa þeir leikið með liðinu undanfarin ár og komið gríðarlega sterkir inn í starfið og þökkum við þeim kærlega fyrir samstarfið og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.
  • Gauti Gunnarsson mun snúa aftur á heimaslóðir sínar með liði ÍBV en Gauti kom virkilega flottur inn í okkar lið í vetur og skoraði meðal annars 8 mörk þegar áframhaldandi vera í efstudeild var tryggð með sigri á Gróttu í lokaumferðinni. 

Smellið hér til að sjá myndir frá lokahófinu.