Fara í efni
Þór

Býst við hörkuleik tveggja góðra liða

Þorlákur Árnason þjálfari Þórsliðsins í knattspyrnu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar taka í dag á móti Vestra frá Ísafirði í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks klukkan 14.00 í Boganum.

„Ég held að við megum búast við hörkuleik tveggja góðra liða og ég hvet alla Þórsara til að koma í Bogann og styðja okkur,“ sagði Þorlákur Árnason þjálfari Þórs við Akureyri.net. Hann segir stöðuna á leikmannahópnum góða, einhverjir glími við smávægileg meiðsli eins og gengur en flestir séu klárir í bátana.

Þór og Vestri gerðu 3:3 jafntefli á Ísafirði í fyrrasumar, þar sem Harley Willard (2) og Nikola Kristinn Stojanovic skoruðu en Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði eina markið þegar Þór vann heimaleikinn 1:0.

Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði eina mark leiksins þegar Þór vann Vestra á heimavelli í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

_ _ _

KOMNIR

  • Aron Ingi Magnússon frá Venezia á Ítalíu
  • Akseli Kalermo frá Litháen
  • Kristján Atli Marteinsson frá Kórdrengjum
  • Marc Rochester Sörensen frá Öster í Svíþjóð
  • Ómar Castaldo Einarsson frá KV
  • Rafnar Máni Gunnarsson frá Völsungi
  • Valdimar Daði Sævarsson frá KV
  • Ýmir Már Geirsson frá KA

FARNIR

  • Auðunn Ingi Valtýsson í Dalvík/Reyni (lánaður)
  • Ásgeir Marinó Baldvinsson í Þrótt Vogum
  • Elvar Baldvinsson í Vestra
  • Harley Willard í KA
  • Orri Sigurjónsson í Fram
  • Sigfús Fannar Gunnarsson í Dalvík/Reyni (lánaður)
  • Viðar Már Hilmarsson í Magna (lánaður)
  • Páll Veigar Ingvason í Magna

_ _ _

Leikið er í Boganum sem fyrr segir. Grasvöllur Þórs hefur komið vel undan vetri, er grænn og fallegur þökk sé hitaleiðslum undir grasinu og nýjum, fínum dúk sem lagður var yfir allan völlinn, en ekki þykir þó óhætt að spila á honum strax. Gert er ráð fyrir að viðureign Þórs/KA og Breiðabliks í Bestu deild kvenna 15. maí verði sú fyrsta, síðan mætast Þór og Leiknir í bikarkeppni karla 15. maí og aftur í deildinni 20. maí.

Viðtal við Þorlák þjálfara birtist á Akureyri.net í gær þar sem hann var m.a. spurður að því við hverju stuðningsmenn liðsins mættu búast í sumar.

„Ég vona að við fáum að sjá einkenni gamalla tíma hjá Þór sem er barátta og vilji, að menn séu tilbúnir að hlaupa fyrir málstaðinn, en svo er það sem við erum að reyna að breyta hvað mest, að vera með tæknilega gott fótboltalið,“ svaraði þjálfarinn. Hann sagði marga leikmenn sína með mikla færni, tæknilega góða, og það vilji hann nýta. „Að vinna leiki og spila góðan fótbolta í leiðinni væri draumur í dós. Maður nær ekki alltaf markmiðunum í hverjum einasta leik, en það er markmiðið.“

Viðtalið við Þorlák í gær: Vil vinna og spila góðan fótbolta –  MYNDBAND